Innlent

Sjö vistaðir í fanga­klefa í nótt

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Það var ýmislegt að gera hjá lögreglunni í nótt.
Það var ýmislegt að gera hjá lögreglunni í nótt. Vísir/Vilhelm

Sjö manns voru vistaðir í fangaklefa í gærkvöldi og nótt að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar. Ýmist fyrir slagsmál, innbrot, eða akstur undir áhrifum fíkniefna. 

Á lögreglustöð eitt, sem vaktar Miðbæ, Seltjarnarnes, Vesturbæ og Austurbæ, var tilkynnt um nytjastuldur á ökutæki. Lögreglumenn við eftirlit sáu bifreiðina stuttu seinna í akstri og handtóku tvo aðila á bifreiðinni, ökumann og farþega. Þeir voru vistaðir í fangaklefa í kjölfarið.

Á sömu stöð fór lögregla ásamt sjúkrabifreið þar sem að talað var um skerta meðvitund hjá aðila. Þegar sjúkraflutningamenn höfðu kannað ástand á viðkomandi og lögregla var að vinna málið á vettvangi reyndi aðilinn að veitast að lögreglumönnum. Aðilinn var yfirbugaður og vistaður í fangaklefa sökum ástands.

Þá handtök lögregla tvo aðila en þeir höfðu slegist sín á milli. Báðir aðilar undir miklum áhrifum áfengis og með minniháttar áverka eftir áflogin. Þeir voru báðir vistaðir í fangaklefa.

Á lögreglustöð tvö, sem vaktar Hafnarfjörð og Árbæ, var ökumaður handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum áfengis. Hann reyndist einnig vera sviptur ökuréttindum og var færður á lögreglustöð í sýnatöku.

Þá var tilkynnt um yfirstandandi innbrot í fyrirtæki. Lögregla hljóp meintan þjóf uppi. Sá gistir nú í fangaklefa. 

Lögreglumenn á lögreglustöð fjögur, sem vaktar Grafarvog, Árbæ og Mosfellsbæ, var aðili handtekinn í heimahúsi eftir að hafa beitt annan ofbeldi. Gerandinn var sagður undir töluverðum áhrifum áfengis og var vistaður í fangaklefa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×