Enski boltinn

Man. City að finna nýjan demant í her­búðum River Plate

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Claudio Echeverri er lykilmaður í sautján ára landsliði Argentínumanna.
Claudio Echeverri er lykilmaður í sautján ára landsliði Argentínumanna. Getty/Alex Caparros

Manchester City er langt komið með því að tryggja sér samning við ungan efnilegan miðjumann frá argentínska félaginu River Plate.

Pilturinn heitir Claudio Echeverri og er enn bara sautján ára gamall. City er að vinna að því að ná í gegn svipuðu samkomulagi í gegn og þegar félagið náði í framherjann Julián Álvarez á sínum tíma.

City samdi við River Plate um Álvarez í janúar 2022 en kom ekki til Englands fyrr en um sumarið.

Nú eru miðlar í Argentínu að segja frá því að River Plate muni selja hann til City fyrir um 25 milljónir punda en fá hann síðan á láni til baka.

Álvarez lék sinn fyrsta leik fyrir City í ágúst 2022 og hefur síðan orðið Englandsmeistari, bikarmeistari, Meistaradeildarmeistari og heimsmeistari félagsliða með City liðinu. Álvarez var einnig í heimsmeistaraliði Argentínumanna á HM í Katar fyrir ári síðan.

Það vissu ekki margir hver Álvarez var áður en hann kom til Englands en sá hefur komið öflugur inn í besta lið heims. Í vetur er Álvarez með 10 mörk og 9 stoðsendingar í 26 leikjum í öllum keppnum.

Nú telja forráðamenn City að þeir hafi fundið nýjan demant í herbúðum River Plate.

Barcelona hafði einnig áhuga á Echeverri en strákurinn var mjög öflugur á heimsmeistaramóti sautján ára landsliða fyrr í þessum mánuði. City menn fóru því á fullt að ná samkomulaginu í höfn.

Echeverri lét það í ljós við forráðamenn River Plate að það væri ólíklegt að hann myndi skrifa undir nýjan samning en núverandi samningur rennur út í desember 2024.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×