Saltburn: Hinn hæfileikaríki herra Quick Heiðar Sumarliðason skrifar 7. janúar 2024 09:35 Þunn þrettándabrenna hégómans. Saltburn er nýjasta kvikmynd Emerald Fennell, leikstýru einnar eftirtektarverðustu kvikmyndar ársins 2022, A Promising Young Woman. Það er Amazon-streymisveitan Prime sem frumsýndi hana rétt fyrir jól. Hinn írski Barry Keoghan, einn áhugaverðasti leikari sinnar kynslóðar, leikur hér Oliver Quick, mann af lægri stigum ensks samfélags, sem kemst inn í Oxford á námsstyrk. Þar er hann að mestu umkringdur hópi dekurbarna sem líta hann hornauga. Vinsælasti nemandi skólans, hinn forríki Felix Catton, sér aum á honum og tekur undir verndarvæng sinn. Áður en langt um líður er Oliver orðinn hálfgerður heimalningur á sveitasetri Catton-fjölskyldunnar, þar sem foreldrarnir taka honum opnum örmum. Að sjálfsögðu flækjast mál þó þegar fram líður, enda eru ekki allir jafn uppnumdir yfir nærveru Quicks, sérstaklega ættarskömmin Farleigh Start. Quick og Start. Kannski fullmikið merkingafyllerí í nafngift? Það var ekki sérlega langt liðið á framvinduna áður en kvikmynd Anthony Minghella The Talented Mr. Ripley kom upp í huga mér. Þar lék Matt Damon ungan lágstéttarmann að nafni Tom Ripley, sem dreginn er inn í líf glaumgosans Dickie Greenleaf. Það er eilítið eins og Fennell langi að gera nákvæmlega eins kvikmynd og Minghella gerði árið 1999 en átti sig á að hún geti ekki hreinlega gert afrita og líma, plottið þurfi að innihalda einhvers konar snúning á söguna. Verkefnið vefst töluvert fyrir Fennell, þar sem The Talented Mr. Ripley gerði umfjöllunarefninu skil á það góðan máta að ekki er miklu við að bæta. Fennell reynir því að magna upp djörfungina og færir það sem fór fram í undirtexta og augngotum í Ripley, upp á yfirborðið. Aðalleikarar The Talented Mr. Ripley. Það er þó aðallega eftir því sem líður á myndina sem veikleikar koma í ljós og fyrirsjáanlegir snúningar höfundarins afhjúpast, því framan af er sagan áhugaverð en drabbast niður eftir miðpunkt. Sérlega er síðasti fjórðungur myndarinnar slappur, þar sem öllum hindrunum sem verða á vegi aðalpersónunnar er rutt úr vegi á of einfaldan máta. ***ÞAÐ SEM Á EFTIR KEMUR INNIHELDUR SPILLA*** Göbbuðum ykkur...ekki. Framan af reynir Fennell að gera sitt besta til að forðast „hefðbundnari“ sögufléttur og úrvinnslu, og virðist vera að gera kvikmynd sem er innblásin af The Talented Mr. Ripley. Hún svíkur það svo í niðurlagi myndarinnar, þegar flakkað er aftur í tímann, fyllt upp í eyðurnar og áhorfendum sýnt hvað gerðist á milli þeirra sena sem þeir hafa þegar séð. Því endum við með alveg sama grunnplott og The Talented Mr. Ripley innihélt, nema hvað brýr milli gjörða aðalpersónunnar eru ekki afhjúpaðar fyrr en í lokin. Þetta er ótrúlega þunnur þrettándi, því sitjum við uppi með kvikmynd sem er hvorki né; ætlar að borða kökuna og eiga hana líka; ætlar að vera óhefðbundin en glutrar því svo niður með því að segja: Allt í plati, það var Quick sem var illmennið allan tímann! Vandinn er hins vegar að sú vending er það fyrirsjáanleg að ég trúði því ekki að hún væri lokasnúningurinn sem tekinn yrði á söguna. En fór sem fór. Hver er tilgangurinn? Saltburn segir mér ekkert sem ég vissi ekki fyrir, og þarf þess vegna að rúlla á því að dramað og persónurnar virki. Dramað gengur öðru hvoru upp og úr verða áhugaverðar og spennandi senur, því er hins vegar of oft fylgt eftir með máttlítilli framvindu sem grefur undan þeirri spennu sem búið er að magna upp. Persónusköpunin er þunn og snúningurinn á fortíð Quick - þar sem áhorfandinn áttar sig á að Quick er af efri miðstétt og hefur aldrei vanhagað um nokkurn skapaðan hlut - er fyrirsjáanlegur. Með honum verður sú taug sem hefur skapast milli áhorfenda og aðalpersónu veikari. Fennell nær aldrei að tengja okkur aftur við Quick og reynir það varla. Hún virðist hafa lagt upp með að gera kvikmynd sem er ádeila á hina ríku en ekki get ég bent á hver hún er. Sannarlega er umfjöllunarefnið siðspillt og ríkt fólk, en hún nær hins vegar aldrei að skapa neina syntesu. Einnig veikir það myndina að innra eðli aðalpersónunnar upplýsist ekki fyrr en í lok myndar og því enginn tími til að varpa ljósi á það og skoða ofan í kjölinn, því verður tilgangur og sögn Saltburn að engu. Barry leikur oft furðufugla og hættulega menn. Sennilega er leikarahópurinn það besta við Saltburn. Eins og áður sagði er Barry Keoghan einhver áhugaverðasti leikari sinnar kynslóðar. Hér er hann að sjálfsögðu frábær eins og honum er von og vísa. Hann er þó að verða „typecasting“ að bráð, sem mögulega skemmir að einhverju leyti framvindu sögunnar þar sem við erum vön því að hann leiki snarbilaðar persónur; um leið og andlit hans birtist á skjánum er strax búið að afhjúpa allt um innra eðli persónu hans. Því er spurning hvort að týpa eins og t.d. Matt Damon (á sínum yngri árum) hefði verið betri valkostur í aðalhlutverkið, enda var hlutverkaskipanin í The Talented Mr. Ripley mjög heillavænleg. Þar kom innra eðli Tom Ripley áhorfendum í opna skjöldu, sem gerist ekki hjá Oliver Quick. Niðurstaða: Saltburn er áhugaverð framan af, en tvær grímur renna á áhorfendur þegar framvindan afhjúpar leyndarmál og lygar. Það er þó margt verra á boðstólum þessa stundina á streymisveitunum, því er Saltburn ágæt í harðindum. Stjörnubíó Bíó og sjónvarp Mest lesið Ómerkilegir þættir um merkilega konu Gagnrýni Fann ástina og setur íbúðina á sölu Lífið „Hann er það reiður að hann skaðar sjálfan sig“ Lífið Konurnar í blauta hádegismatnum kröfuharðastar Lífið Þau eru tilnefnd fyrir verstu kvikmyndagerðina Bíó og sjónvarp Sagt að koma strax upp á bráðamótttöku Lífið Fær stóru tíðindin á sama tíma og við hin Lífið „Mæli rosalega mikið með því að giftast þeim sem maður elskar“ Lífið Þetta heita „glöðustu hundar“ bræðranna Lífið Emilia Pérez með met margar tilnefningar til Óskars Lífið Fleiri fréttir Ómerkilegir þættir um merkilega konu Litríkar umbúðir en lítið innihald Illa bruggaðar Guðaveigar Vínartónleika skorti léttleika: Dansararnir stálu senunni Kynferðislega ófullnægður forstjóri finnur sér ungan graðfola Nýársswing með handbremsu Getuleysi á stóra sviðinu Barist um arfinn í Borgó Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Sjá meira
Hinn írski Barry Keoghan, einn áhugaverðasti leikari sinnar kynslóðar, leikur hér Oliver Quick, mann af lægri stigum ensks samfélags, sem kemst inn í Oxford á námsstyrk. Þar er hann að mestu umkringdur hópi dekurbarna sem líta hann hornauga. Vinsælasti nemandi skólans, hinn forríki Felix Catton, sér aum á honum og tekur undir verndarvæng sinn. Áður en langt um líður er Oliver orðinn hálfgerður heimalningur á sveitasetri Catton-fjölskyldunnar, þar sem foreldrarnir taka honum opnum örmum. Að sjálfsögðu flækjast mál þó þegar fram líður, enda eru ekki allir jafn uppnumdir yfir nærveru Quicks, sérstaklega ættarskömmin Farleigh Start. Quick og Start. Kannski fullmikið merkingafyllerí í nafngift? Það var ekki sérlega langt liðið á framvinduna áður en kvikmynd Anthony Minghella The Talented Mr. Ripley kom upp í huga mér. Þar lék Matt Damon ungan lágstéttarmann að nafni Tom Ripley, sem dreginn er inn í líf glaumgosans Dickie Greenleaf. Það er eilítið eins og Fennell langi að gera nákvæmlega eins kvikmynd og Minghella gerði árið 1999 en átti sig á að hún geti ekki hreinlega gert afrita og líma, plottið þurfi að innihalda einhvers konar snúning á söguna. Verkefnið vefst töluvert fyrir Fennell, þar sem The Talented Mr. Ripley gerði umfjöllunarefninu skil á það góðan máta að ekki er miklu við að bæta. Fennell reynir því að magna upp djörfungina og færir það sem fór fram í undirtexta og augngotum í Ripley, upp á yfirborðið. Aðalleikarar The Talented Mr. Ripley. Það er þó aðallega eftir því sem líður á myndina sem veikleikar koma í ljós og fyrirsjáanlegir snúningar höfundarins afhjúpast, því framan af er sagan áhugaverð en drabbast niður eftir miðpunkt. Sérlega er síðasti fjórðungur myndarinnar slappur, þar sem öllum hindrunum sem verða á vegi aðalpersónunnar er rutt úr vegi á of einfaldan máta. ***ÞAÐ SEM Á EFTIR KEMUR INNIHELDUR SPILLA*** Göbbuðum ykkur...ekki. Framan af reynir Fennell að gera sitt besta til að forðast „hefðbundnari“ sögufléttur og úrvinnslu, og virðist vera að gera kvikmynd sem er innblásin af The Talented Mr. Ripley. Hún svíkur það svo í niðurlagi myndarinnar, þegar flakkað er aftur í tímann, fyllt upp í eyðurnar og áhorfendum sýnt hvað gerðist á milli þeirra sena sem þeir hafa þegar séð. Því endum við með alveg sama grunnplott og The Talented Mr. Ripley innihélt, nema hvað brýr milli gjörða aðalpersónunnar eru ekki afhjúpaðar fyrr en í lokin. Þetta er ótrúlega þunnur þrettándi, því sitjum við uppi með kvikmynd sem er hvorki né; ætlar að borða kökuna og eiga hana líka; ætlar að vera óhefðbundin en glutrar því svo niður með því að segja: Allt í plati, það var Quick sem var illmennið allan tímann! Vandinn er hins vegar að sú vending er það fyrirsjáanleg að ég trúði því ekki að hún væri lokasnúningurinn sem tekinn yrði á söguna. En fór sem fór. Hver er tilgangurinn? Saltburn segir mér ekkert sem ég vissi ekki fyrir, og þarf þess vegna að rúlla á því að dramað og persónurnar virki. Dramað gengur öðru hvoru upp og úr verða áhugaverðar og spennandi senur, því er hins vegar of oft fylgt eftir með máttlítilli framvindu sem grefur undan þeirri spennu sem búið er að magna upp. Persónusköpunin er þunn og snúningurinn á fortíð Quick - þar sem áhorfandinn áttar sig á að Quick er af efri miðstétt og hefur aldrei vanhagað um nokkurn skapaðan hlut - er fyrirsjáanlegur. Með honum verður sú taug sem hefur skapast milli áhorfenda og aðalpersónu veikari. Fennell nær aldrei að tengja okkur aftur við Quick og reynir það varla. Hún virðist hafa lagt upp með að gera kvikmynd sem er ádeila á hina ríku en ekki get ég bent á hver hún er. Sannarlega er umfjöllunarefnið siðspillt og ríkt fólk, en hún nær hins vegar aldrei að skapa neina syntesu. Einnig veikir það myndina að innra eðli aðalpersónunnar upplýsist ekki fyrr en í lok myndar og því enginn tími til að varpa ljósi á það og skoða ofan í kjölinn, því verður tilgangur og sögn Saltburn að engu. Barry leikur oft furðufugla og hættulega menn. Sennilega er leikarahópurinn það besta við Saltburn. Eins og áður sagði er Barry Keoghan einhver áhugaverðasti leikari sinnar kynslóðar. Hér er hann að sjálfsögðu frábær eins og honum er von og vísa. Hann er þó að verða „typecasting“ að bráð, sem mögulega skemmir að einhverju leyti framvindu sögunnar þar sem við erum vön því að hann leiki snarbilaðar persónur; um leið og andlit hans birtist á skjánum er strax búið að afhjúpa allt um innra eðli persónu hans. Því er spurning hvort að týpa eins og t.d. Matt Damon (á sínum yngri árum) hefði verið betri valkostur í aðalhlutverkið, enda var hlutverkaskipanin í The Talented Mr. Ripley mjög heillavænleg. Þar kom innra eðli Tom Ripley áhorfendum í opna skjöldu, sem gerist ekki hjá Oliver Quick. Niðurstaða: Saltburn er áhugaverð framan af, en tvær grímur renna á áhorfendur þegar framvindan afhjúpar leyndarmál og lygar. Það er þó margt verra á boðstólum þessa stundina á streymisveitunum, því er Saltburn ágæt í harðindum.
Stjörnubíó Bíó og sjónvarp Mest lesið Ómerkilegir þættir um merkilega konu Gagnrýni Fann ástina og setur íbúðina á sölu Lífið „Hann er það reiður að hann skaðar sjálfan sig“ Lífið Konurnar í blauta hádegismatnum kröfuharðastar Lífið Þau eru tilnefnd fyrir verstu kvikmyndagerðina Bíó og sjónvarp Sagt að koma strax upp á bráðamótttöku Lífið Fær stóru tíðindin á sama tíma og við hin Lífið „Mæli rosalega mikið með því að giftast þeim sem maður elskar“ Lífið Þetta heita „glöðustu hundar“ bræðranna Lífið Emilia Pérez með met margar tilnefningar til Óskars Lífið Fleiri fréttir Ómerkilegir þættir um merkilega konu Litríkar umbúðir en lítið innihald Illa bruggaðar Guðaveigar Vínartónleika skorti léttleika: Dansararnir stálu senunni Kynferðislega ófullnægður forstjóri finnur sér ungan graðfola Nýársswing með handbremsu Getuleysi á stóra sviðinu Barist um arfinn í Borgó Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Sjá meira