Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps mótmælti í gær harðlega vinnubrögðum Landsvirkjunar við undirbúning útboðs á vindmyllum við Vaðöldu, sem fengið hefur vinnuheitið Búrfellslundur. Landsvirkjun tilkynnti á miðvikudag útboðið og var það gert með fyrirvara um leyfis- og skipulagsmál. Sú leið, sem er nokkuð óhefðbundin, er sögð til að flýta verkefninu.
„Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps telur það vera ámælisvert að Landsvirkjun skuli reyna að fara í kringum lög og vinna gegn hagsmunum nærsamfélagsins. Slík vinnubrögð eru ekki til þess að skapa sátt um komandi orkuöflun sem nauðsynlegt er að ráðast í,“ sagði í yfirlýsingu sveitarstjórnarinnar í gær.
Landsvirkjun segir í yfirlýsingu sem birtist í Morgunblaðinu í morgun að einhvers misskilnings gæti hjá Skeiða- og Gnúpverjahreppi um staðsetningu vindorkuversins. Fyrirhugaður Búrfellslundur sé alfarið innan sveitarfélagsmarka Rangárþings ytra.
„Og hefur verið það frá því að skýrsla um endurhönnun virkjunarkostsins var lögð fram árið 2020. Það er sú endurhönnun virkjunarkostsins sem Alþingi færði úr biðflokki í nýtingarflokk, en ekki eldri útgáfa.“
Fram kemur í yfirlýsingunni að það að hefja útboð með fyrirvara um leyfis- og skipulagsmál sé vissulega óhefðbundið en með þessu sé líklegt að vindmyllurnar verði farnar að skila orku inn á raforkukerfið fyrir árslok 2026.
Enginn þurfi að velkjast í vafa um staðsetningu Búrfellslundar enda hafi vinna við aðalskipulagsbreytingu og gerð deiliskipulags fyrir svæðið staðið síðan í desember 2022 með Rangárþingi ytra, sem hafi skipulagsvald á svæðinu.