Veður

Suð­vestan kaldi með skúrum eða éljum

Atli Ísleifsson skrifar
Snemma í fyrramálið gengur í sunnan hvassviðri eða storm með rigningu.
Snemma í fyrramálið gengur í sunnan hvassviðri eða storm með rigningu. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan gerir ráð fyrir suðvestan kalda eða stinningskalda með skúrum eða éljum en bjart með köflum norðaustantil.

Á vef Veðurstofunnar segir að hiti verði á bilinu eitt til sex stig í dag en víða vægt frost inntil landsins.

„Snemma í fyrramálið gengur hinsvegar í sunnan hvassviðri eða storm með rigningu og hlýnandi veðri en snjókoma og vægt frost á Vestfjörðum.

Sums staðar á Vesturlandi má búast við talsverðri rigningu. Það er því útlit fyrir leiðinlegt ferðaveður í öllum landshlutum en einkum á Vestfjörðum. Síðdegis á morgun snýst í suðvestan 13-20 m/s með skúrum eða éljum og kólnandi veðri,“ segir í tilkynningunni.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag: Sunnan 13-20 m/s og rigning eða slydda, sums staðar talsverð. Milt veður. Snýst í suðvestan 5-13 með éljum og kólnandi veðri, fyrst vestantil.

Á föstudag og laugardag: Sunnan- og suðvestan 10-15 m/s og él, en úrkomuminna norðaustantil. Frost 0 til 8 stig.

Á sunnudag: Suðlæg eða breytileg átt. Snjókoma með köflum og frost 0 til 5 stig.

Á mánudag: Útlit fyrir suðlæga átt. Víða rigning eða snjókoma, en lengst af þurrt norðaustanlands. Hlýnandi veður, hiti 0 til 5 stig seinnipartinn, en frost 0 til 5 stig fyrir norðan og austan.

Á þriðjudag: Líklega suðvestanátt með éljum og kólnandi veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×