Erlent

Bílastæðagjald fyrir jepplinga hækkað í 2.700 krónur fyrir klukku­stund

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fjölmargir fá undaþágu frá gjaldtökunni, sem beinist aðallega að þeim sem gætu notað almenningssamgöngur.
Fjölmargir fá undaþágu frá gjaldtökunni, sem beinist aðallega að þeim sem gætu notað almenningssamgöngur. AP/Michel Euler

Eigendur jepplinga þurfa nú að greiða átján evrur fyrir að leggja bifreið sinni í klukkustund í miðborg Parísar. Gjaldið var áður sex evrur en 54,55 prósent íbúa í miðborginni greiddu atkvæði með tillögu um að þrefalda það.

Borgarstjórinn Anne Hidalgo barðist ötullega fyrir tillögunni en hún hefur sagt jepplinga hættulega og skaðlega umhverfinu. Tillagan beinist aðallega að einstaklingum úr úthverfum borgarinnar en fjölmargir verða undanþegnir gjaldtökunni, svo sem íbúar, ökumenn rafbíla, leigubílstjórar og heilbrigðisstarfsmenn.

Hidalgo hefur nú verið borgarstjóri í tíu ár og unnið að því á þeim tíma að göngugötuvæða París, leggja hjólastíga og banna rafhlaupahjól. 

Umhverfissinnar voru mjög fylgjandi tillögunum um að hækka bílastæðagjöld fyrir jepplinga, sem þeir segja menga meira en aðrar bifreiðar og vera hættulegri þegar árekstrar verða. Ýmis samtök ökumanna og pólitískir andstæðingar Hidalgo hafa hins vegar gagnrýnt breytinguna og segja meðal annars erfitt að segja til um hvaða bifreiðar falla undir skilgreininguna „jepplingur“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×