„Mannkynið stendur frami fyrir mörgum áskorunum, meðal annars vegna erfðatækni. Nú er mögulegt að búa til ofurmenni, sértæka mannveru,“ fullyrti Pútín og nefndi sem dæmi að hægt væri að hanna íþróttamenn, vísindamenn, og hermenn með erfðaverkfræði.
„Nú er greint frá því að Elon Musk hafi grætt heilaflögu í manneskju í Bandaríkjunum,“ bætti hann við. Fjallað var um þetta í janúar, að Neuralink, fyrirtæki Musk, hefði grætt þráðlausa flögu í heila manneskju eftir að hafa fengið grænt ljós frá bandarískum yfirvöldum.
„Hvað finnst þér um það?“ spurði Carlson í kjölfarið.
„Ég held að ekkert stöðvi Elon Musk. Hann gerir það sem honum hentar. Þrátt fyrir það verður að vera hægt að miðla málum við hann, sannfæra hann. Ég held að hann sé klár. Ég trúi því staðfastlega. Og þess vegna verður að vera hægt að gera samkomulag við hann, því ferli sem þetta verður að vera fastmótað og reglubundið,“ svaraði Pútín, sem bætti við að framþróun á sviði gervigreindar og erfðatækni væri óhjákvæmileg.
„En um leið og við áttum okkur á því að ógnin stafar af taumlausri og óheflaðri uppbyggingu gervigreindar eða erfðafræði, eða hvað sem það er, þá munum við átta okkur á því hvernig við komum reglu á þessa hluti.“
Líkt og áður segir var viðtal Carslons birt á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter, sem er í eigu Elon Musk, sem virtist fylgjast spenntur með viðtalinu.
„Er að horfa núna,“ tísti hann og deildi viðtalinu í sömu færslu.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Pútín fer fögrum orðum um Musk. Í september á síðasta ári fullyrti hann að Musk væri „óumdeilanlega frábær manneskja“.
„Það verður að viðurkennast, og ég held að það sé viðurkennt um allan heim,“ fullyrti hann og bætti við að þegar að kæmi að viðskiptum væru Musk mjög hæfileikaríkur.
Ummælin vöktu sérstaka athygli í ljósi þess að nokkrum dögum áður hafði verið greint frá því að Musk hafði skipað starfsmönnum sínum að slökkva á netþjónustu Starlink undan ströndum Krímskaga til þess að stöðva leynilega árás Úkraínu á rússneska flotann árið 2022. Úkraínumenn notuðust við dróna sem var stýrt með nettengingu frá Starlink.