Gallagher tvenna og mark Enzo í uppbótartíma tryggði Chelsea sigur

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Conor Gallagher var hetja Chelsea gegn gamla liði sínu Crystal Palace.
Conor Gallagher var hetja Chelsea gegn gamla liði sínu Crystal Palace. Vísir/Getty Images

Conor Gallagher skoraði tvívegis gegn sínum gömlu félögum þegar Chelsea lagði Crystal Palace að velli, 3-1, Jefferson Lerma kom heimamönnum yfir í fyrri hálfleik en gestirnir svöruðu vel í þeim seinni.

Chelsea hélt boltanum vel í fyrri hálfleik og átti fína spilkafla en tókst illa að finna marktækifæri. Þegar fyrri hálfleik lauk hafði Chelsea verið 79% með boltann en ekki átt eitt skot á markið.

Crystal Palace reiddi sig á snöggar skyndisóknir og ógnuðu marki gestanna grimmt. Jefferson Lerma kom Crystal Palace yfir á 30. mínútu með frábæru skoti eftir að Tyreek Mitchell vann boltann af Moises Caicedo á vallarhelmingi Chelsea.

Chelsea kom mun betur búið út í seinni hálfleikinn og jöfnuðu fljótt leikinn. Conor Gallagher skoraði markið með góðri afgreiðslu í fyrstu snertingu eftir fyrirgjöf Malo Gusto. Gallagher spilaði með Crystal Palace tímabilið 2021–22, hann vottaði gamla liðu sínu enga virðingu og fagnaði markinu af mikilli ákefð fyrir framan stuðningsmenn Palace.

Gallagher var svo aftur á ferðinni í uppbótartíma. Cole Palmer fékk þá boltann á vinstri vængnum, keyrði að teignum og lagði hann út á Gallagher sem skoraði af öryggi og hljóp í átt að stuðningsmönnum Palace til að fagna.

Sigurinn var svo gulltryggður þegar Enzo Fernandez bætti marki við, aftur eftir stoðsendingu Cole Palmer, rétt áður en lokaflautið gall.

Chelsea fór með þessum sigri upp í efri hluta deildarinnar og sitja nú í 10. sæti með 34 stig. Crystal Palace er fimm sætum neðar með 24 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira