Evrópumeistarar Manchester City unnu 3-1 sigur er liðið heimsótti FC Kaupmannahöfn í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.
Eins og við var að búast voru það gestirnir frá Manchester sem voru mun sterkari aðilinn í leik kvöldsins og fyrsta markið leit dagsins ljós eftir aðeins tíu mínútna leik þegar Kevin De Bruyne kom boltanum í netið eftir stoðsendingu frá Phil Foden.
Eftir markið bjuggust kannski margir við að City væri að fara að valta yfir Kaupmannahafnarliðið, en í staðinn jafnaði Magnus Mattsson metin fyrir heimamenn með fallegu skoti á 34. mínútu. Gestirnir náðu hins vegar að endurheimta forystuna fyrir hálfleikshléið þegar Bernerdo Silva skoraði eftir stoðsendingu frá Kevin De Bruyne.
Gestirnir sóttu svo án afláts í síðari hálfleik, en Kamil Grabara varði eins og óður maður í marki FCK. Hann kom þó engum vörnum við á seinustu mínútu uppbótartíma þegar Phil Foden kom boltanum í netið eftir orrahríð að marki heimamanna og niðurstaðan varð því 3-1 sigur Manchester City.