Fótbolti

Út­húðaði eigin leik­manni: „Hlýtur að þurfa að fara á sjúkra­hús“

Sindri Sverrisson skrifar
Hamari Traore fékk það hlutverk að glíma við einn albesta leikmann heims, Kylian Mbappé, í gærkvöld en var utan vallar þegar Mbappé skoraði.
Hamari Traore fékk það hlutverk að glíma við einn albesta leikmann heims, Kylian Mbappé, í gærkvöld en var utan vallar þegar Mbappé skoraði. Getty/Catherine Steenkeste

Hamari Traore sló ekki beinlínis í gegn hjá þjálfara sínum í leik með Real Sociedad gegn PSG í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í gærkvöld.

PSG vann leikinn 2-0 og þjálfarinn Imanol Alguacil var sérstaklega óánægður með fyrra mark PSG, sem Kylian Mbappé skoraði eftir hornspyrnu.

Traore átti að dekka Mbappé en eins og sjá má hér að neðan kom markið á meðan að Traore fékk aðhlynningu utan vallar eftir að hafa kennt sér meins. Þessi 32 ára bakvörður kom svo aftur inn á og kláraði leikinn.

Klippa: Mörk PSG gegn Real Sociedad

„Ég fæ ekki skilið hvernig leikmaður, sem hefur neyðst til að fara af vellinum, einmitt þegar liðið hans er að fá á sig mark, endar ekki á sjúkrahúsi,“ sagði Alguacil blákalt á blaðamannafundi eftir leik.

„Ég skil það ekki. Ef leikmaður skilur liðið sitt eftir manni færra þá hlýtur hann að þurfa að fara á sjúkrahús. Það hlýtur að vera alveg á hreinu,“ sagði Alguacil.

Real Sociedad hefur nú spilað fimm leiki í röð í öllum keppnum án þess að skora mark, og er komið niður í 7. sæti spænsku deildarinnar. Seinni leikur liðsins við PSG verður á Spáni 5. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×