Enski boltinn

„Mamma, við skulum fara til Banda­ríkjanna“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emma Hayes fagnar hér einum af mörgum titlum sínum með Chelsea með syni sínum.
Emma Hayes fagnar hér einum af mörgum titlum sínum með Chelsea með syni sínum. Getty/Justin Setterfield/

Fimm ára sonur Emmu Hayes átti mikinn þátt í því að hún tók risaákvörðun varðandi þjálfaraferil sinn.

Hayes hefur verið knattspyrnustýra Chelsea frá árinu 2012 og á þeim tíma hefur hún gert Chelsea liðið að besta liði Englands.

Undir hennar stjórn hefur Chelsea unnið fimmtán titla þar af enska meistaratitilinn sex sinnum og enska bikarinn fimm sinnum.

Á dögunum tók hún þá ákvörðun að hætta með Chelsea liðið eftir tólf ára starf en taka í staðinn við bandaríska landsliðinu.

Áður en hún tók þessa ákvörðun þá vildi hún heyra hvað fimm ára sonur hennar myndi segja við því að flytja yfir Atlantshafið.

„Ég spurði hann: Mamma hefur fengið tækifæri til að fara til Bandaríkjanna og þjálfa bandaríska landsliðið. Á ég að taka þessu tilboði eða vera áfram hér? Ég vissi ekki hverju hann myndi svara,“ sagði Emma Hayes í viðtali við Telegraph.

„Hann brosti til mín, faðmaði mig, kyssti mig og sagði svo: Mamma, við skulum fara til Bandaríkjanna. Ég er mjög spenntur og ég vil fara til Bandaríkjanna,“ sagði Hayes.

„Ég trúði þessu varla. Þar með var þetta ákveðið og þetta var sú hvatning sem ég þurfti á að halda,“ sagði Hayes.

Strákurinn hennar var tvíburi en Hayes missti annað fóstrið á 28 viku meðgöngunnar. Hún eignaðist hann 17. maí 2018.

Bandaríska landsliðið ollið gríðarlegum vonbrigðum á HM í fyrra þar sem liðið datt óvænt út í sextán liða úrslitum. Liðið er á leiðinni á Ólympíuleikana í París í sumar sem verður fyrsta verkefni Hayes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×