Enski boltinn

Salah klár og enginn neyddur til að spila of snemma

Sindri Sverrisson skrifar
Trent Alexander-Arnold missir af næstu leikjum Liverpool vegna meiðsla.
Trent Alexander-Arnold missir af næstu leikjum Liverpool vegna meiðsla. Getty/John Powell

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, fann sig knúinn til að svara efasemdaröddum þeirra sem telja að Trent Alexander-Arnold og Dominik Szoboszlai hafi verið látnir byrja of snemma að spila eftir meiðsli.

Klopp ræddi við fréttamenn í dag vegna leiksins við Brentford í ensku úrvalsdeildinni í hádeginu á morgun.

Hann staðfesti meðal annars að staðan á Mohamed Salah væri góð, eftir að hann meiddist á Afríkumótinu með Egyptum.

„Mo er byrjaður að æfa af fullum krafti, og þannig auðvitað sjálfkrafa í baráttu um byrjunarliðssæti. Ibou [Ibrahima Konaté] er ekki lengur í banni. Joe [Gomez] er aftur klár, Conor [Bradley] er kominn aftur, Ali [Alisson] er kominn aftur, svo það er allt jákvætt,“ sagði Klopp.

Á meiðslalista Liverpool eru hins vegar meðal annarra Thiago og fyrrnefndir Alexander-Arnold og Szoboszlai.

Alexander-Arnold náði aðeins tveimur leikjum eftir hnémeiðsli áður en þau tóku sig upp að nýju á dögunum og hann missir af næstu leikjum, þar á meðal úrslitaleik deildabikarsins gegn Chelsea 25. febrúar. Szoboszlai meiddist sömuleiðis á ný í læri í fyrsta byrjunarliðsleik sínum eftir mánuð frá keppni. En Klopp segir leikmenn aldrei neydda til að byrja of snemma að spila:

„Ég þarf að koma einu á hreint. Það var einhver umræða í sjónvarpi um að við gætum hafa þrýst of mikið á Trent að spila, því það hafa komið tvö bakslög sem er mjög óheppilegt og enginn vill það. En þetta eru ólík tilvik og ólíkar aðstæður. Í minni stjórnartíð höfum við aldrei neytt einhvern til að byrja aftur að spila, og munum aldrei gera það,“ sagði Klopp. Hann bætti við að auðvitað væri reynt að fá leikmenn aftur úr meiðslum eins fljótt og hægt væri, en aldrei þannig að þeir væru neyddir til að spila of snemma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×