Greint var frá því í byrjun árs að maðurinn hefði verið ákærður fyrir að hafa slegið mann í andlitið og tekið síma hans og bíllykla, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut brot á andlitsbeini, bólgu, mar og þreifieymsli yfir kinnbeini og gagnauga og blæðingu við vinstra auga.
Í ákæru, sem birt var í Lögbirtingarblaðinu, sagði að ránið hafi verið framið fyrir utan sumarbústað við Svignaskarð í Borgarbyggð í desember árið 2021.
Í dómi héraðsdóms segir að maðurinn hafi ekki sótt þingfestingu málsins og því hefði útivistardómur verið kveðinn upp í því, í samræmi við lög um meðferð sakamála. Þá segir að félagi hans hafi hlotið dóm fyrir ránið þann 18. desember. Sá hlaut einnig sex mánaða skilorðsbundna fangelsisrefsingu.
Þá segir að málsmeðferð málsins hefði dregist úr hömlu af ýmsum orsökum sem manninum yrði ekki kennt um. Refsing mannsins, sem sé með hreint sakavottorð, væri því ákveðin með hliðsjón af þessum töfum, sem fari í bága við meginreglu sakamálaréttarfars um hraða málsmeðferð og sé í andstöðu við stjórnarskrána.
Sem áður segir var maðurinn dæmdur til sex mánaða fangelsisvistar en fullnustu refsingar var frestað og látin falla niður að tveimur árum liðnum, haldi hann almennt skilorð.
Engan sakarkostnað leiddi af rekstri málsins.