Danns kom inn á sem varamaður í framlengingunni í leiknum gegn Chelsea á Wembley. Undir lok hennar skoraði Virgil van Dijk, fyrirliði Liverpool, eina mark leiksins.
Í leikslok var meðalaldur leikmanna Liverpool aðeins 22 ár. Hinn tvítugi Conor Bradley byrjaði leikinn en í framlengingunni komu Bobby Clark (19 ára), Jayden Danns (18), James McConnell (19) og Jarell Quansah (21) allir inn á sem varamenn. Þá var hinn tvítugi Harvey Elliott einnig inn á en hann hefur verið lengur í aðalliðinu en hinir.
Danns er framherji sem er fæddur í Liverpool 16. janúar 2006. Hann lék sinn fyrsta leik fyrir aðallið Liverpool í 4-1 sigrinum á Luton Town á dögunum og lagði þá upp mark fyrir Elliott.
Pabbi Danns, Neil, var einnig fótboltamaður og fór víða á löngum ferli. Hann lék síðast með Macclesfield og var spilandi þjálfari liðsins. Þá lék hann 25 landsleiki fyrir Gvæjana og skoraði ellefu mörk.

Pabbi Neils og afi Jaydens var einnig íþróttamaður en hann varð Evrópumeistari á hjólabretti. En honum var fleira til lista lagt.
Neil eldri var meðal annars bakraddasöngvari í framlagi Breta til Eurovision 1987. Lagið nefndist „Only the Light“ og var flutt af skoska tónlistarmanninum Rikki, eða Richard Winters Peebles. Sjá má flutning hans og Neils eldri á laginu hér fyrir neðan.
„Only the Light“ endaði í 13. sæti af 22 lögum í Eurovision 1987. Bretar fengu 47 stig. Ísraelar gáfu þeim flest stig, eða tíu stig. Rikki fékk ekkert stig frá Íslandi sem endaði í sínu 16. sæti í þessari keppni. Halla Margrét Árnadóttir flutti lagið „Hægt og hljótt“ fyrir Íslands hönd.
Dóttir Neils yngri og barnabarn Neils eldri, Hayla, tók þátt í krakkaEurovision fyrir hönd Breta í fyrra. Hún flutti lagið „Back to Life“ ásamt stúlknasveitinni Stand Uniqu3.