Handbolti

Dagur fær ís­lenskan reynslubolta til að hjálpa sér

Sindri Sverrisson skrifar
Gunnar Magnússon hefur marga fjöruna sopið með íslneska landsliðinu og mun nú aðstoða Dag Sigurðsson við leikgreiningu fyrir Króatíu.
Gunnar Magnússon hefur marga fjöruna sopið með íslneska landsliðinu og mun nú aðstoða Dag Sigurðsson við leikgreiningu fyrir Króatíu. Hulda Margrét & @insta_hrs

Dagur Sigurðsson þarf að hafa snör handtök sem nýr landsliðsþjálfari Króatíu í handbolta því eftir hálfan mánuð ætla Króatar að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum í París í sumar. Hann fær íslenskan reynslubolta og gamlan lærisvein til að hjálpa sér.

Dagur var kynntur til leiks á blaðamannafundi í Zagreb í dag. Í samtali við Vísi greindi hann frá því að þjálfarinn Gunnar Magnússon, sem nú stýrir Aftureldingu en er margreyndur sem aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins, yrði Degi til halds og trausts.

„Hann ætlar að hjálpa mér að heiman og halda utan um leikgreininguna fyrir mig, svona rétt á meðan ég kynnist mínu samstarfsfólki hérna úti. Ég er ævinlega þakklátur honum fyrir að taka það að sér,“ segir Dagur.

Klippa: Dagur með íslenskan aðstoðarmann

Stutt er í ólympíuumspilið þar sem Króatía berst við Þýskaland Alfreðs Gíslasonar, Austurríki og Alsír um tvö laus sæti á Ólympíuleikunum. Dagur er feginn að geta kastað fram hugmyndum til Gunnars fram að því og í umspilsvikunni um miðjan mars:

„Ég er með mjög reyndan mann þar sem hefur farið á þrenna Ólympíuleika og ég veit ekki hvað mörg heims- og Evrópumeistaramót. Hann hefur líka farið í gegnum svona keppni [ólympíuumspil] tvisvar þannig að það er gott að hafa reynslumann með sér í þessu. Ég er ánægður með að Króatarnir skyldu taka vel í það,“ segir Dagur sem vonast til þess að Gunnar verði með honum í Þýskalandi þar sem ólympíuumspilið fer fram.

Gamall lærisveinn verður aðstoðarþjálfari

Dagur verður einnig með hinn 44 ára gamla Denis Spoljaric sem aðstoðarþjálfara.

„Ég tek aðstoðarmann með mér sem að spilaði fyrir mig í Berlín, hjá Füchse. Hann var króatískur varnarmaður sem varð bæði ólympíu- og heimsmeistari, og er mjög traustur og góður drengur. Hann verður aðstoðarmaður minn í þessum leikjum til að byrja með, og vonandi lengur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×