Clark er þegar búin að slá stigamet kvenna í bandaríska háskólakörfuboltanum en vantar átján stig í lokaleiknum til að slá karlametið.
Það er frábært að fylgjast með Clark sem er rosaleg þriggja stiga skytta og spilar jafnframt upp félaga sína með frábærum sendingum. Hún er búin að vera með þrennu í síðustu tveimur leikjum á sama tíma og metapressan er mikil.
Næsti leikur Iowa er á móti Ohio State um helgina. Það er barist um miðana á þennan sögulega leik. Met Pistol Pete Maravich hefur staðið frá árinu 1970 þegar hann lauk háskólaferli sínum. Nú eru miklar líkur á því að það falli enda er Clark að skora 32,2 stig að meðaltali í leik.
Svo mikill er áhuginn að ódýrasti miðinn á leikinn er nú kominn upp í 402 Bandaríkjadali eða tæpar 56 þúsund íslenskar krónur.
Til samanburðar þá er ódýrasti miðinn á stórleik Boston Celtics og Golden State Warriors í NBA-deildinni 212 dollarar eða rúmar 29 þúsund íslenskar krónur.