Enski boltinn

Ca­semiro hvetur eig­endur Man. Utd að herma eftir Man. City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Casemiro eftir tapleikinn á móti Manchester City í gær ásamt þeim Omari Forson og Bruno Fernandes.
Casemiro eftir tapleikinn á móti Manchester City í gær ásamt þeim Omari Forson og Bruno Fernandes. Getty/Catherine Ivill

Brasilíski miðjumaðurinn Casemiro vill að nýir eigendur Manchester United horfi á Manchester City eins og spegil þegar þeir reyna að koma United liðinu aftur á toppinn í ensku úrvalsdeildinni.

United tapaði 3-1 á móti City í Manchester slagnum í gær. Liðið komst í 1-0 en City var með öll völd á vellinum og skoraði síðan þrjú mörk í seinni hálfleiknum.

Þetta var fyrsti nágrannaslagurinn síðan að Sir Jim Ratcliffe komst inn í eigendahóp United og hann sýndi hversu mikið bil er á milli liðanna. Casemiro var spurður hvort hann sjái jákvæð merki eftir að nýju eigendurnir komu inn og hvort að það sé löng leið fram undan ætli United að ná City.

„Það er stóra markmiðið en við verðum líka að vera auðmjúkir og átta okkur hvar við erum í dag. Saga Manchester United talar fyrir sig sjálf en City er nú liðið sem þarf að vinna. Allir vilja vinna City,“ sagði Casemiro við ESPN í Brasilíu.

„Við erum með spegil í borginni sem er City og þeir hafa verið að gera frábæra hluti,“ sagði Casemiro sem hvetur eigendur Man. Utd að herma eftir Man. City í enduruppbyggingunni.

Ratcliffe hefur talað um að koma City af toppnum innan þriggja ára sem er metnaðarfullt markmið.

United hefur ekki unnið titilinn í meira en tíu ár en á sama tíma hefur City unnið ensku úrvalsdeildina sex sinnum.

„Auðvitað þegar nýtt fólk kemur inn þá vill það þróa og bæta við félagið. Það er alltaf mikilvægt. Það er augljóst á fyrirtækið [INEOS] og nýju eigendurnir vilja gera þetta. Ég vona að þeir geti komið inn og vaxið með okkur. Það er mikilvægt að fá inn fólk sem vill vaxa og dafna hér,“ sagði Casemiro.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×