Sport

Tíma­móta­titill Sólar og full­komin helgi Inga

Sindri Sverrisson skrifar
Sól Kristínardóttir Mixa með verðlaunagripinn sem nýr Íslandsmeistari í borðtennis.
Sól Kristínardóttir Mixa með verðlaunagripinn sem nýr Íslandsmeistari í borðtennis. Mynd/Ingimar Ingimarsson

Óhætt er að segja að spennan hafi verið mikil í úrslitaleikjunum á Íslandsmótinu í borðtennis um helgina. Hin 18 ára gamla Sól Kristínardóttir Mixa varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn og sú fyrsta úr BH, Badmintonfélagi Hafnarfjarðar, til að landa titlinum.

Sól varð fyrst Íslandsmeistari í tvíliðaleik með Aldísi Rún Lárusdóttur úr KR en þær mættust svo einmitt í úrslitum einliðaleiksins.

Þar var spennan mikil en Aldís vann fyrstu tvær loturnar, 14-12 og 11-6, og setti þannig mikla pressu á Sól sem svaraði með því að vinna næstu fjórar í röð (11-7, 11-6, 11-6 og 11-9) og tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

Ingi Darvis Rodriguez vann titlana þrjá sem í boði voru fyrir hann í Digranesi um helgina.Mynd/Ingimar Ingimarsson

Spennan var ekki síðri í einliðaleik karla þar sem Ingi Darvis Rodriguez úr Víkingi vann sigur á Magnúsi Gauta Úlfarssyni úr BH í oddalotu. Ingi vann fyrstu tvær loturnar, 11-9 og 11,7, og eftir að Magnús vann þá þriðju 11-6 vann Ingi 11-7 og var þar með kominn í 3-1 og vantaði bara eina lotu upp á.

En Magnús vann tvær næstu, 12-10 og 11-8, og jafnaði metin. Ingi tryggði sér hins vegar titilinn með því að vinna oddalotuna 11-9. Þetta var annar titill Inga í einliðaleik því hann vann einnig fyrir fjórum árum.

Ingi vann þrefalt á mótinu í ár því hann varð einnig Íslandsmeistari í tvíliðaleik með Magnúsi Jóhanni Hjartarsyni, liðsfélaga sínum úr Víkingi, og í tvenndarleik með Evu Jósteinsdóttur, einnig úr Víkingi, en þau unnu Sól og Magnús Gauta í úrslitaleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×