Ráðamenn í Manilla saka Kínverja um ólöglegar og hættulegar aðgerðir. Þeir segja atvikið gefa til kynna að Kínverjar hafi lítinn áhuga á viðræðum og því að reyna að draga úr spennu á svæðinu, samkvæmt frétt Reuters.
Verið var að flytja birgðir til hermanna sem halda til í flaki skips við Second Thomas-grynningarnar í Suður-Kínahafi, þegar kínverska strandgæslan reyndi að koma í veg fyrir það.
Umræddu skipi var siglt í strand við grynningarnar árið 1999 til að festa tilkall Filippseyja til grynninganna. Þær eru innan tvö hundruð sjómílna efnahagslögsögu Filippseyja.
Sambærilegt atvik átti sér stað í október. Þá voru Filippseyingar einni að flytja birgðir til hermannanna.
Kínverjar gerðu fyrir nokkrum árum ólöglegt tilkall til nánast alls Suður-Kínahafs og er þar á meðal hafsvæði Filippseyja, Taívan, Víetnam, Malasíu og Brúnei. Alþjóðagerðadóminn í Haag, sem komst árið 2016 að þeirri niðurstöður að tilkall Kína væri ólöglegt.
Þrátt fyrir það hafa Kínverjar haldið áfram hernaðaruppbyggingu á svæðinu og hafa þeir aldrei viðurkennt úrskurðinn. Meðal annars hafa þeir byggt heilu eyjurnar, flotastöðvar og flugvelli og komið eldflaugum fyrir á svæðinu.
Forsvarsmenn kínversku strandgæslunnar segja að gripið hafi verið til eðlilegra viðbragða við „ólöglegri“ siglingu skipa inn á yfirráðasvæði þeirra.
Ráðamenn í Kína hafa krafist þess að strandaða skipið við Second Thomas-grynningarnar verði dregið á brott. Filippseyingar segjast hins vegar ekki ætla að gefa eftir undan þrýstingi frá Kína.
Ferdinand Marcos Jr., sem varð forseti Filippseyja í fyrra, hefur leitað eftir betri tengslum við Bandaríkin en forveri sinn og reynt að standa í hárinu á Kínverjum. Ríkisstjórn hans hefur ítrekað lagt fram kvartanir vegna framferðis Kínverja í Suður-Kínahafi.