Menning

Síðasta verk Nóbelsverðlaunahafans gefið út gegn hans eigin óskum

Jón Þór Stefánsson skrifar
Gabriel García Márquez hlaut nóbelverðlaunin í bókmenntum árið 1982. Hans frægustu verk eru Hundrað ára einsemd og Ást á tímum kólerunnar.
Gabriel García Márquez hlaut nóbelverðlaunin í bókmenntum árið 1982. Hans frægustu verk eru Hundrað ára einsemd og Ást á tímum kólerunnar. EPA

Síðasta skáldsaga kolumbíska Nóbelsverðlaunahafans, Gabriel García Márquez, Until August, sem mætti útleggja sem Þangað til í ágúst, verður gefin út að honum látnum og gegn óskum hans.

„Hann sagði mér hreint út að ég ætti að eyðileggja skáldsöguna,“ segir Gonzalo García Barcha, sonur rithöfundarins við New York Times. Þar segir að á síðustu æviárum García Márquez hafi hann reynt að leggja lokahönd á söguna sem fjallar um kynlíf giftrar miðaldra konu. 

Höfundurinn er sagður hafa átt við söguna í mörg ár, á meðan hann glímdi til að mynda við elliglöp og minnisleysi, en hann gafst upp á endanum og ákvað að bókin skyldi ekki gerð aðgengileg almenningi.

Eftir sátu 796 blaðsíður sem hafa safnað ryki frá andláti García Márquez, sem lést 87 ára gamall árið 2014, þangað til synir hans ákváðu að ganga á bak orða sinna og gefa skáldsöguna út.

Á síðasta ári fengu synirnir ritstjórann Cristóbal Pera, sem hafði unnið með föður þeirra, í verkið. Until August var til í fimm útgáfum og því var vandasamt verk fyrir höndum, að búa til eina heildstæða skáldsögu úr þessum fimm. Þar að auki fékk hann eitt skilyrði: ekki mátti nota stakkt orð sem García Márquez hafði ekki skrifað sjálfur.

Fram kemur í umfjöllun New York Post að margt hafi verið ólíkt í þessum fimm útgáfum. Til að mynda var aldur aðalsöguhetjunnar á reyki og stundum var einn elskandi hennar með yfirvaraskegg og stundum ekki.

Synir García Márquez segja að með útgáfu Until August verði allra síðasta verk föður þeirra gefið út. Nóbelsverðlaunahafinn hafi vissulega gert margar útgáfur af fyrri verkum sínum, en hann hafi verið óhræddur við að eyða þeim útgáfum sem ekki voru gefnar út. Hann vildi ekki að þær yrðu grandskoðaðar síðar.

Þeir segja að það sé á meðal ástæðanna fyrir því að þeir hafi ákveðið að gefa þessa síðustu skáldsögu út. „Þá verður ekkert annað eftir í borðskúffunni.“

Á meðal frægustu skáldsagna García Márquez eru Hundrað ára einsemd og Ást á tímum kólerunnar. Guðbergur Bergsson þýddi bæði verkin yfir á íslensku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×