Enski boltinn

Man. United mögu­lega án vinstri bak­varðar út tíma­bilið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luke Shaw er meiddur og því hefur Victor Lindelöf verið að spila sem vinstri bakvörður hjá Erik ten Hag.
Luke Shaw er meiddur og því hefur Victor Lindelöf verið að spila sem vinstri bakvörður hjá Erik ten Hag. Getty/ Matthew Peters

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, er með eina vandamálastöðu í liðinu og ástæðan er að það er engir heilir leikmenn eftir.

United liðið er án hreinræktaðs vinstri bakvarðar vegna meiðsla Luke Shaw og Tyrell Malacia. Ofan á það bætist við að lánsmaðurinn Sergio Reguilón var sendur til baka í janúar.

Ten Hag sagði læknalið United hafa fullvissað sig Shaw og Malacia yrðu báðir klárir og þess vegna fékk Reguilón að fara.

Ten Hag segir að það sé ólíklegt að Malacia spili meira vegna hnémeiðsla og Shaw verður lengi frá í viðbót. Shaw á smá möguleika á því að ná síðustu leikjunum en hann vill ólmur spila til að koma með enska landsliðinu á EM.

Ten Hag hefur því þurft að nota miðvörðinn Victor Lindelöf og miðjumanninn Sofyan Amrabat í vinstri bakvarðarstöðunni og það er líklegt til að halda áfram næstu vikur og jafnvel mánuði. United mætir Everton í hádeginu.

„Þetta er það sem ég er hvað mest pirraður yfir,“ sagði Erik ten Hag spurður um Shaw og Malacia.

„Þú getur sætt þig við það að leikmaður missi af leikjum en þegar tveir leikmenn eru svo mikið frá á tímabilinu þá er það mjög pirrandi. Ég ræddi við læknaliðið í desember og þeir fullvissuðu mig um að Shaw og Malacia yrðu báðir leikfærir í janúar,“ sagði Ten Hag.

Malacia hefur ekki spilað með United síðan í maí og spilaði síðasta keppnisleik sinn með hollenska landsliðið í júní.

Shaw hefur ekki spilað síðan í 2-1 sigri á Luton í febrúar en hann hefur aðeins náð fimmtán leikjum á öllu tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×