Fiorentina vann 1-0 sigur í fyrri leiknum á heimavelli og unnu því samanlagt 4-1.
Alexandra var í byrjunarliði Fiorentina inn á miðri miðjunni. Sænski framherjinn Madelen Janogy skoraði tvö markanna og það þriðja skoraði Veronica Boquete úr vítaspyrnu.
Janogy skoraði strax á 4. mínútu og kom þeim fjólubláu í lykilstöðu enda með eins marks forskot úr fyrri leiknum. Vítamarkið kom á 23. mínútu og Janogy skoraði síðan aftur eftir aðeins fimm mínútur í seinni hálfleik.
Sara Björk Gunnarsdóttir byrjaði á bekknum hjá Juventus en kom inn á sem varamaður eftir klukkutíma leik.
Fiorentina mætir annað hvort AC Milan eða Roma í úrslitaleiknum en seinni undanúrslitaleikurinn þeirra fer fram á morgun.
Fiorentina var ekki eina Íslendingaliðið sem komst áfram í bikarnum í dag því Bröndby tryggði sér þá sæti í undanúrslitum danska bikarsins með 2-0 sigri á Kolding. Kristín Dís Árnadóttir og Hafrún Rakel Halldorsdóttir voru báðar í byrjunarliði Bröndby.
Bryndís Arna Níelsdóttir, Þórdís Elva Ágústsdóttir og félagar þeirra í Vaxjö þurftu aftur á móti að sætta sig við 3-0 bikartap á móti Häcken en sænska bikarkeppnin er enn í riðlakeppninni. Bryndís spilaði fyrstu 66 mínúturnar en Þórdís Elva allan leikinn.