Í skýrslu sendinefndar Sameinuðu þjóðanna í Líbanon (Unifil) segir að starfsmenn hafi ekki geta merkt nein skot fara yfir „Bláu línuna“ milli Ísrael og Líbanon í meira en 40 mínútur áður en skriðdrekinn skaut á fólkið.
Þannig sé ómögulegt að segja til um það hvers vegna skotið var á hópinn.
Samkvæmt ályktun 1701, sem var samþykkt árið 2006 til að binda enda á átök milli Ísrael og Hezbollah í Líbanon, viðhafa friðargæsluliðar frá Sameinuðu þjóðunum eftirlit meðfram hinni 120 km löngu Bláu línu milli Ísrael og Líbanon.
Þeim er gert að skrásetja öll tilvik þar sem brotið er gegn vopnahléinu og rannsaka grófustu tilvikin.
Guardian hefur eftir Nir Dinar, talsmanni Ísraelshers, að herinn hafi verið að svara árásum Hezbollah nærri byggðinni Hanita þegar atvikið átti sér stað. Í kjölfarið hafi borist fregnir af dauðsfalli blaðamannsins.
Dinar ítrekaði að Ísraelsher skyti ekki viljandi á almenna borgara, þar á meðal blaðamenn. Frjáls fjölmiðlun væri gríðarlega mikilvæg en að flytja fréttir frá átakasvæðum væri áhættusamt.