Þetta kemur fram í pistli sem birtur var í gær á facebook-síðu hóps innan jarðvísindadeildar Háskóla Íslands sem nefnist Rannsóknareining í eldfjallafræði og náttúruvá. Skráðir ábyrgðarmenn hópsins eru Þorvaldur Þórðarson prófessor, Ármann Höskuldsson rannsóknarprófessor, Ingibjörg Jónsdóttir dósent og William M. Moreland aðjúnkt.
„Síðan frá seinni hluta desember 2023 hefur innflæði úr dýpri kvikugeymslunni (10-15 km dýpi) inn í grynnri kvikugeymsluna (4-5 km dýpi undir Svartsengi) helmingast eða frá ~8 rúmmetra á sekúndu niður í ~4 rúmmetra á sekúndu (sjá meðfylgjandi mynd). Fræðin segja okkur að kvika getur ekki lengur viðhaldið risi um sprungu í skorpunni ef flæðið fellur niður fyrir 2-3 rúmmetra á sekúndu,“ segir í pistlinum.

Þar er þessi ályktun dregin:
„Ef það heldur áfram að draga úr innflæðinu inn í grynnri kvikugeymsluna með þessum hraða, þá fellur flæðið niður fyrir þrjá rúmmetra á sekúndu eftir um það bil mánuð (þ.e., ~27 daga) og niður fyrir 2 rúmmetra á sekúndu innan tveggja mánaða (þ.e., ~52 daga). Samkvæmt þessu þá gætu umbrotin á Sundhnúkareininni tekið enda innan eins til tveggja mánaða,“ segir á síðu rannsóknareiningar í eldfjallafræði og náttúruvá við Háskóla Íslands.
Athyglisvert er að vísindahópurinn við Háskólann metur þróunina með sama hætti og jarðvísindamennirnir Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur og Grímur Björnsson jarðeðlisfræðingur gerðu í sameiginlegri grein á eldfjallabloggi Haraldar í fyrradag. Þeir Haraldur og Grímur komust að þeirri niðurstöðu að hraði kvikuinnrennslis undir Svartsengi hefði nánast helmingast frá fyrsta kvikuinnskotinu í nóvember og birtu spálíkan um að umbrotunum við Grindavík myndi ljúka síðsumars.
Sérfræðingar Veðurstofu Íslands túlka gögnin hins vegar með öðrum hætti. Þeir sendu frá sér tilkynningu í gær þar sem þeir sögðust ekki sjá nein skýr merki um að streymi kviku inn í söfnunarsvæðið hefði minnkað verulega. Því væri of snemmt að fara að spá fyrir um lok þessarar atburðarásar.
„Því miður er ennþá talsverð óvissa um hvenær hægt er að segja með fullri vissu að þessum kafla eldsumbrotanna á Reykjanesskaga og við Grindavík sé að ljúka,“ sagði í tilkynningu Veðurstofunnar.
Stöð 2 fjallaði um spálíkan Haraldar og Gríms í fyrrakvöld: