Góðu fréttirnar eru þær að fyrirliðinn Jóhann Berg Guðmundsson og félagi hans á miðjunni, Arnór Ingvi Traustason, eru með á æfingunni.
Jóhann missti af leiknum við Ísrael vegna meiðsla í læri og Arnór Ingvi fór meiddur af velli í 4-1 sigrinum góða, eftir að hafa skorað afar mikilvægt mark.
Verra mál er þó kannski að Guðlaugur Victor Pálsson er ekki með á æfingunni í dag, en það þarf þó ekki að þýða að óvissa ríki um hans þátttöku í úrslitaleiknum á þriðjudaginn. Hann sást aðeins á gangi í kringum völlinn.
Arnór Sigurðsson er farinn heim eftir að hafa meiðst gegn Ísrael.
![](https://www.visir.is/i/4DB20502558A2E081A7F0478A0B2FE22AE8C5109CCF7A48935981A6C3CF86968_713x0.jpg)
Á æfingunni í dag reyndi einnig á raddbönd manna því Ísak Bergmann Jóhannesson fagnar 21 árs afmæli í dag. Leikmenn og þjálfarar, þar á meðal Jóhannes Karl Guðjónsson pabbi Ísaks, sungu að sjálfsögðu fyrir afmælisbarnið sem lék sinn 25. A-landsleik í fyrrakvöld
![](https://www.visir.is/i/60D18731A4945906D3F4CD4727235DE383B5AC4C8F38FA26A14F7A31FEC0BE20_713x0.jpg)
![](https://www.visir.is/i/D3E8BDC76DC51E2A1BEC1C7E35E51C3B68227A3558F4781F78F924260EDE7B75_713x0.jpg)
Leikur Úkraínu og Íslands verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport þriðjudaginn 26. mars. Leikurinn hefst klukkan 19.45 en upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 19.10.