Erlent

Hin látnu tengd fjöl­skyldu­böndum og vopn á vett­vangi

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint.
Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint. EPA

Lögreglan í Noregi rannsakar dauða fjögurra manna fjölskyldu sem fannst látin í íbúð í bænum Ål í Noregi í gærkvöldi. Á blaðamannafundi kom fram að vopn hafi fundist á vettvangi. 

Á blaðamannafundi sem fór fram í morgun kom fram að tveir fullorðnir og tvö ungmenni, sem voru tengd fjölskylduböndum, hafi fundist látin í íbúðinni. Þau væru öll með skráð lögheimili í íbúðinni. 

Þá staðfesti lögregla að vopn hafi fundist á vettvangi. Þó sé of snemmt að segja til um dánarorsök og hvenær þau létust. Lögregla segist rannsaka málið sem grunsamleg andlát. Rannsókn fari fram á næstu dögum.

Fram kom að lögreglu hafi borist tilkynning um þrjúleytið í gær og komið á vettvang. Fimm klukkustundum síðar hafi henni borist önnur tilkynning og þá hafi lögreglumenn farið inn í íbúðina og komið að hinum látnu.

Loks sagði lögregla að ekki hafi verið borin formleg kennsl á hina látnu. 

Solveig Vestenfor bæjarstjóri Ål segir bæjarbúa harmi sleginn eftir atvikið, en samkvæmt opinberum tölum búa í kringum fimm þúsund manns í sveitarfélaginu. Hún segir samfélagið í áfalli og vottar ættingjum hinna látnu samúð sína. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×