Fótbolti

Messi: Ég hætti þegar ég get ekki lengur hjálpað mínum liðs­fé­lögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi lyftir heimsbikarnum í Katar í desember 2022.
Lionel Messi lyftir heimsbikarnum í Katar í desember 2022. Getty/Hernan Cortez

Lionel Messi segir að aldur hans muni ekki hafa úrslitaáhrif þegar kemur því að ákveða að setja fótboltaskóna upp á hillu. Hann segist muni vita það sjálfur þegar rétti tíminn er kominn.

Argentínski landsliðsfyrirliðinn er orðinn 36 ára gamall og samningur hans við Inter Miami nær til desember 2025. Hann hefur ekkert rætt um það opinberlega hvenær hann muni kveðja fótboltann.

„Ég veit að rétti tímapunkturinn verður þegar ég er ekki að skila mínu til liðsins. Ef ég er ekki að njóta mín eða að hjálpa liðsfélögunum þá mun ég hætta,“ sagði Lionel Messi við MBC hlaðvarpið Big Time Podcast. ESPN segir frá.

„Ég er sjálfsgagnrýninn. Ég veit hvenær ég er að standa mig vel og hvenær ég spila illa. Þegar ég finn það á sjálfum mér að það sé kominn tími til að taka þetta skref þá mun ég taka það án þess að pæla í því hvað ég er gamall. Ef mér líður vel þá mun ég alltaf reyna að halda áfram að keppa því það er það sem ég hef gaman af og það er eitthvað sem ég kann,“ sagði Messi.

Messi vann áttunda Gullhnöttinn sinn á síðasta ári og leiddi argentínska landsliðið til heimsmeistaratitils í desember 2022. Það er búist við því að hann spili með Argentínu í Copa America í sumar.

„Hefðu hlutirnir ekki farið eins og þeir fóru á HM þá hefði ég hætt í landsliðinu,“ sagði Messi. Hann er að glíma við tognun í læri og var því ekki með argentínska landsliðinu í tveimur leikjum í þessum landsleikjaglugga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×