„Ég hef alltaf sagt að ég myndi hætta þann dag sem að leikurinn og gleðin er ekki lengur til staðar. Hún er þarna enn og ég er hundrað prósent áfram í því sem ég geri. En ég finn líka að aðrir hlutir eru farnir að toga meira í mig. Í sumar er rétti tíminn til að leggja skóna á hilluna,“ sagði hinn 36 ára gamli Hansen á blaðamannafundinum.
Hansen kvaðst frekar vilja hætta aðeins of snemma en of seint, en hann vonast mjög til þess að geta fyrst spilað á Ólympíuleikunum í París. Ekki er víst að honum verði að ósk sinni.
„Ég get ekki sagt til um það,“ sagði Jacobsen landsliðsþjálfari við TV 2 Sport. „Hann er meiddur í augnablikinu en ef hann jafnar sig vel þá skoðum við málið í framhaldinu,“ sagði Jacobsen sem fór hins vegar ekki í grafgötur með hve merkilegur handboltamaður Hansen væri:
„Þetta er sorgardagur. Hann er einn stærsti handboltamaður sem við höfum átt í Danmörku. Hann er einn af stærstu íþróttamönnum sem við höfum átt í dönsku íþróttalífi. Hann er líka einn af þeim stærstu í handboltanum á heimsvísu,“ sagði Jacobsen.
„Þess vegna er þetta sorgardagur, því einn sá allra stærsti er að hætta,“ bætti hann við.