Íslenski boltinn

Beint úr NWSL í Stjörnuna

Sindri Sverrisson skrifar
Caitlin Cosme er mætt á Samsung-völlinn í Garðabæ.
Caitlin Cosme er mætt á Samsung-völlinn í Garðabæ. Stjarnan

Stjarnan hefur nú kynnt annan daginn í röð til leiks bandarískan leikmann sem spila mun með kvennaliði félagsins í Bestu deildinni í fótbolta í sumar.

Í gær var greint frá því að hin 24 ára Hannah Sharts væri mætt í vörnina hjá Garðbæingum, eftir að hafa orðið tvöfaldur meistari með KuPS í Finnlandi á síðustu leiktíð.

Núna hefur svo hin 25 ára gamla Caitlin Cosme bæst í hópinn en hún kemur til Stjörnunnar beint úr einni af sterkari deildum heims, bandarísku NWSL-deildinni, þar sem hún lék fjóra leiki með Orlando Pride í fyrra.

Cosme var samherji Stjörnuhjónanna Gunnhildar Yrsu Jónsdóttur og Erin Mcleod hjá Orlando Pride, áður en þær fóru til Stjörnunnar fyrir síðustu leiktíð.

Hún er víðast titluð varnarmaður en í tilkynningu Stjörnunnar segir að hún sé miðjukona, sem leikið hafi með U14- og U15-landsliðum Bandaríkjanna, og með Duke-háskólanum þar sem hún hafi verið gerð að fyrirliða.

Í tilkynningu segir einnig að Cosme sé mikill leiðtogi og gleðigjafi sem gott sé að fá í mikið breyttan hóp Stjörnunnar frá síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×