Hinn 19 ára gamli Þorlákur Breki Baxter kemur til Stjörnunnar frá Lecce, eftir einn vetur á Ítalíu, en hann lék með Selfossi í Lengjudeildinni í fyrra og skoraði þá þrjú mörk í sextán leikjum.
Breki kom til Selfoss frá Hetti á Egilsstöðum í ársbyrjun 2021, eftir að hafa spilað 15 leiki í 3. deildinni og skorað fjögur mörk sumarið 2020, aðeins 15 ára gamall.
Hann hefur samtals spilað 32 leiki í næstefstu deild fyrir Selfoss, og skorað fjögur mörk. Breki á auk þess að baki fimm leiki fyrir yngri landslið Íslands.
Stjörnumenn, sem hafa verið óhræddir við að spila á ungum leikmönnum síðustu ár, hefja nýja leiktíð í Bestu deildinni á því að mæta meisturum Víkings í Fossvogi annað kvöld. Fyrsti heimaleikur þeirra er svo gegn KR næsta föstudagskvöld.