Upp­gjörið: Fram - Vestri 2-0 | Öflug byrjun í Úlfarsárdalnum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Framarar fóru með sigur af hólmi í fyrsta leik tímabilsins
Framarar fóru með sigur af hólmi í fyrsta leik tímabilsins

Nýliðar Vestra heimsóttu Fram í Úlfarsárdalinn í fyrstu umferð Bestu deildar karla. Lokatölur 2-0 sigur Fram, bæði mörk komu í fyrri hálfleiknum sem var feyki fjörugur, það hægðist svo töluvert á hlutunum í þeim seinni. 

Frederico Bella Saraiva kom heimamönnum yfir á 16. mínútu. Eftir góðan spilkafla barst boltinn út á vinstri vængbakvörðinn Má Ægisson, hann keyrði upp kantinn og kom boltanum inn í teig á Trygga Snæ. Tryggvi lagði boltann út á Fred sem tók snertingu og þrumaði boltanum svo meðfram jörðinni í nærhornið og netið.

Á 27. mínútu gerðist Eiður Aron Sigurbjörnsson svo óheppinn að setja boltann í eigið net. Fram hafði þá legið í stórsókn og reynt nokkrar fyrirgjafir og skot. Kennie Chopart var kominn upp völlinn úr vörninni, boltinn barst til hans rétt fyrir utan teig og hann tók fast skot sem var á leiðinni framhjá en Eiður potaði tánni í boltann og stýrði óvart í eigið net.

Það hægðist töluvert á leiknum í seinni hálfleik. Fram átti erfitt með að halda í boltann og fóru í háloftaleik við Vestra. Gestirnir áttu ágætis spilkafla en sköpuðu sér fá hættuleg færi. 

Það var ekki fyrr en alveg undir lokin að þeir komust nálægt því að minnka muninn, Vladimir Tufegdzic slapp einn í gegn og kom skotinu framhjá markverðinum en Adam Örn renndi sér og bjargaði á línu.

Þar við sat, heimamenn héldu marki sínu hreinu og hirtu stigin þrjú.

Atvik leiksins

Framarar fögnuðu dátt þegar áhorfendatölur voru kynntar, vallarmetið slegið strax í fyrsta leik, jafnvel þótt kuldinn hafi sagt til sín og vindar blásið fast. Vallarstjóri tilkynnti blaðamönnum það með bros á vör að 1861 áhorfandi væri viðstaddur. 

Stjörnur og skúrkar

Vængbakverðir Fram, Alex Freyr Elísson og Már Ægisson, voru frábærir báðir tveir og skiluðu alvöru hlaupatölum. Tengdu vel við miðjuna og spiluðu sig upp, fundu pláss bakvið vörn Vestra og áttu fínar fyrirgjafir.

En Kennie Chopart var stjarnan í dag og á mikið hrós skilið fyrir sína frammistöðu. Var gjörsamlega út um allt á vellinum. Spilaði í einhverju frjálsu, flæðandi miðvarðarhlutverki í þriggja manna línu. Hljóp oft upp völlinn og kom varnarmönnum Vestra í vandræði við talninguna, skilaði sér svo alltaf til baka og varðist virkilega vel.

Pétur Bjarnason og Sergine Modou Fall fengu klaufaleg spjöld fyrir óþarfa pirringsbrot en Eiður Aron Sigurbjörnsson hlýtur nafnbótina skúrkurinn, þó sjálfsmarkið hafi auðvitað verið algjörlega óvart. Samt klaufalegt að reka tánna í bolta á svona mikilli ferð þegar skotið var á leiðinni framhjá og enginn í hlaupi fyrir aftan. 

Dómarinn

Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, margreyndur og hélt mönnum á mottunni. Spjöldin sem hann gaf voru verðskulduð. Fólk furðaði sig þó stundum á stöðvunum og töfum, Vilhjálmur stöðvaði leik oft á skrítnum tímum, menn voru stundum búnir að jafna sig þegar hann flautaði og stundum hefði bara mátt sleppa stöðvun halda áfram. Vanalega bæta menn líka við þegar það er stoppað svona oft en uppbótartíminn, allavega í fyrri hálfleik, var alls ekki í samræmi við tafir.

Stemning og umgjörð

Fram stóð vel að fyrsta leik tímabilsins. Ýmsir heiðursmenn voru heiðraðir með ávarpi formanns fyrir leik, verðlaun og viðurkenningar voru veitt fyrir vel unnin störf.

Það var þétt setið í stúkunni, 1861 manns í heildina sem er nýtt vallarmet. Fyrra met var 1722 gegn ÍBV. Trommukjuðinn var aðeins mundaður af heimamönnum en þeir létu ekkert mjög mikið í sér heyra. Mjög vel mætt hjá Vestra miðað við aðstæður.

Það var vel gert við vallargesti í mat og drykk, hamborgarar á grillinu samkvæmt lyktarskyninu. Blaðamenn voru þar með taldir. Yndisleg kona sem færði okkur snápunum samlokur, kaffi og kökur.

Ekkert út á umgjörð að setja en hrikaleg hönnun á glugganum í blaðamannastúkunni skemmdi útsýnið, bæði slæmt að horfa yfir völlinn og svo sá maður ekkert út í horn.

„Var hann ekki á leiðinni á markið samt?“

Eiður Aron gekk til liðs við Vestra frá ÍBV fyrr í vetur.Vísir/Diego

„Bara fúll sko. Engin svaka frammistaða hjá okkur“ sagði Eiður Aron Sigurbjörnsson, varnarmaður Vestra, fljótlega eftir leik. 

Eiður gekk til liðs við nýliða deildarinnar fyrr í vetur. Þetta var fyrsti leikur Vestra í efstu deild og menn eru brattir þrátt fyrir tap. 

„Holningin var allt í lagi sko, við gefum bara tvö mörk í fyrri hálfleik. Sköpum okkur allt í lagi sénsa í seinni en við erum bara brattir“

Eiður varð fyrir því óhappi að setja boltann í eigið net í fyrri hálfleik. Skot Kennie Chopart var á leiðinni framhjá en Eiður stýrði boltanum óvart á markið.

„Var hann ekki á leiðinni á markið samt? Hann skýtur fyrir utan, fer í mig og inn. Ég held að þetta hafi gerst líka hérna í fyrra, veit ekki hvað er með mig og þennan völl. En hvað á maður að gera í þessu, þetta gerist bara.“

Fyrsti leikur búinn og sviðsskrekkurinn vonandi farinn. Vestri mætir næst Breiðabliki.

„Við erum bara spenntir. Fyrsti leikur Vestra í efstu deild búinn, búið að vera spenningur fyrir þessu. Það er bara áfram gakk og við erum klárir í næsta leik“ sagði Eiður að lokum. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira