Íslenski boltinn

„Komum út „guns blazing“ og reynum að fella risann“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Guðmundur Kristjánsson í leik milli Stjörnunnar og Víkings í fyrra. Halldór Smári Sigurðarson er í baksýn en sá er í banni í kvöld.
Guðmundur Kristjánsson í leik milli Stjörnunnar og Víkings í fyrra. Halldór Smári Sigurðarson er í baksýn en sá er í banni í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Það gætir á barnslegri eftirvæntingu hjá Guðmundi Kristjánssyni, fyrirliða Stjörnunnar, fyrir opnunarleik Bestu deildar karla í kvöld. Stjarnan heimsækir Víkina og mætir tvöföldum meisturum klukkan 19:15 í kvöld.

„Við erum rosalega vel gíraðir. Það er mikil eftirvænting. Það er langt undirbúningstímabil á ári hverju en loksins komið að leik sem skiptir dálítið meira máli. Það er ekkert eðlilega gaman. Maður er alltaf eins og krakki fyrir fyrsta leik, orðinn tíu ára aftur,“ segir Guðmundur í samtali við Vísi.

Hann snerti á undirbúningstímabilinu sem var það fyrsta undir stjórn Jökuls Elísabetarsonar, sem tók við liðinu á miðju tímabili í fyrra. Hann segir það aðeins hafa verið frábrugðið öðrum undirbúningstímabilum.

„Öðruvísi að einhverju leyti, já. Það hafa verið ákveðnar áherslubreytingar og ákveðnir hlutir sem við höfum unnið meira í en oft áður. Svo hefur tímabilið dálítið skipst eftir því í hverju við erum að vinna. Þetta er náttúrulega bara fótbolti svo maður þekkir þetta flest. Áherslurnar eru mismunandi hjá ólíkum þjálfurum en fyrsta heila með honum og verður gaman að sjá hvernig við komum undan því,“ segir Guðmundur.

Rýnt var í undirbúning Stjörnunnar í þætti Baldurs Sigurðssonar, Lengsta undirbúningstímabil í heimi, sem má nálgast í spilara Stöðvar 2 hér.

Mæta til að sækja

Garðbæingar ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í kvöld. Þeirra bíður heimsókn til tvöfaldra meistara Víkings. Guðmundur segir allt geta gerst og að öll pressan sé á heimamönnum.

„Þetta leggst bara mjög vel í mig. Þetta verður auðvitað erfiður leikur en líka bara skemmtilegur. Þeir eru svolítið liðið til að vinna. Það er gott að byrja bara á því, við komum út guns blazin og reyna að fella risann,“

„Ég held að við séum lítilmagninn. Öll pressan er á þeim. En við setjum pressu á okkur sjálfa að standa okkur og ef við spilum okkar leik getum við alveg unnið þennan leik. Hvernig það svo gengur verður að koma í ljós,“ segir Guðmundur sem á von á fótboltaveislu.

„Við erum ekki að fara þarna til að reyna að ná í jafntefli. Ég hugsa að þetta verði hörkuopnunarleikur. Endilega að fólk mæti á völlinn, hafi gaman, fái sér börger og hvetji lið sín áfram,“ segir Guðmundur.

Leikur Víkings og Stjörnunnar er klukkan 19:15 í kvöld. Bein útsending hefst klukkan 18:45 þar sem hitað verður upp fyrir leiki helgarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×