Tilkynning um eldinn barst rétt fyrir klukkan átta að staðartíma í morgun. Bæði er unnið að því að slökkva eldinn, sem og að því að bjarga verðmætum en inni í húsinu voru fjölmörg listaverk og önnur verðmæti.
Børsen er eitt elsta hús Kaupmannahafnar og var byggð árið 1625, hefði orðið fjögur hundruð ára á næsta ári.

Um tíma var búið að loka fjölmörgum umferðargötum í borginni og mynduðust langar raðir bíla þar. Í kringum bygginguna safnaðist fjöldi fólks til þess að freista þess að sjá eldtungurnar.
Meðlimir danska þingsins frestuðu öllum þeirra fundum í morgun vegna brunans. Kristjánsborgarhöll, þinghúsið í Danmörku, er nálægt Børsen og þurfti að rýma hluta hallarinnar.

Jakob Engel-Schmidt, menningarmálaráðherra Danmerkur, segir brunann hörmung fyrir danska menningarsögu.
„Þessi merki spírall, sem táknar bæði glæsileikann og gildin sem voru í huga þegar byggingin var hönnuð og sköpuð með á sínum tíma,“ segir Engel-Schmidt.

Metta Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, segir atvikið vera hræðilegt.
„Hluti af danskri sögu logar. Kauphöllinn er ein af merkustu byggingum Kaupmannahafnar og merki um fjögur hundruð ára viðskiptasögu Danmerkur,“ segir Mette í færslu á Facebook-síðu sinni.
Brian Mikkelsen, forstjóri Viðskiptaráðs Danmerkur (Dansk Erhverf), segir brunann vera þjóðarhörmung.
„Við hlupum inn og náðum í nokkra hluti sem skipta máli fyrir danska sögu. En það er byggingin sjálf, sem hefur verið tákn um danskt viðskiptalíf í yfir fjögur hundruð ár. Þetta er ein mikilvægasta bygging Danmerkur,“ segir Mikkelsen.