Skoðun

Af hverju Helgu Þóris­dóttur?

Haukur Arnþórsson skrifar

Fullyrða má að Helga sé einkum merkisberi framþróunar þjóðfélagsins og siðmenningar í opinberu lífi. Einkenni sem ákall hefur verið eftir.

Upplýsingatæknin og líftæknin opna tækifæri og skapa ógnir sem lítið eru ræddar á innlendum vettvangi; málefni sem Helga fylgist vel með. Hún er merkisberi persónuverndar og mannréttinda og hluti af evrópskri hreyfingu sem vill auka jákvæð áhrif nýrrar framþróunar. Hreyfingin og evrópsku reglurnar, sem ná til fjölmargra sviða, m.a. viðskipta, er eina haldbæra svar mannkynsins gegn hættunum sem fylgja nýrri tækni – en notkun hennar beinist víða að eftirliti með almenningi og jafnvel inngripum í líf hans.

Fáar eftirlitsstofnanir hafa breytt eins miklu fyrir almenning og Persónuvernd. Á meðan líf hvers og eins er yfirvöldum sums staðar opin bók búum við Íslendingar við öryggi um okkar eigin málefni. „Það skiptir máli hver stjórnar“ segja stjórnmálamennirnir, og það sama á við um opinbera embættismenn. Helga hefur verið staðföst og óhrædd við að móta hvernig framþróunin kemur við okkur.

Það hefur verið gaman að sjá hvernig einn embættismaður með leiðtogahæfileika hefur leitt okkur með siðferðisstyrk sínum – okkur sem greinilega höfum verið óafvitandi um þetta og álitið að mannréttindi féllu í okkar hlut án beitingu jákvæðs opinbers valds – og við hljótum að íhuga að sömu hæfileikar eigi vel heima á Bessastöðum. Þar sem reynir á staðfestu gagnvart vinstri og hægri og vald á grundvelli siðmenningar.

Frægðarljómi frambjóðendanna hefur mótað skoðanakannanir hingað til. En kannski má líta dýpra. Ég vona að eiginleikar og störf þeirra eigi eftir að fá hærri sess í umræðunni.

  • Við ætlum það vori á morgun
  • og viðjarnar falli.
  • Að meðmæli berist af torgum
  • að þjóðin kalli.
  • Eftir Helgu að hæstu borgum.

Höfundur er stjórnsýslufræðingur.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×