Innlent

Lög­reglan lofar góðu vegaeftirliti á Suður­landi í sumar

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Grímur Hergeirsson, lögreglustjóri á Suðurlandi, sem segir að lögreglan verði með sýnilegt og virkt umferðareftirlit í sumar.
Grímur Hergeirsson, lögreglustjóri á Suðurlandi, sem segir að lögreglan verði með sýnilegt og virkt umferðareftirlit í sumar. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Lögreglustjórinn á Suðurlandi lofar góðu umferðareftirliti lögreglu á vegum svæðisins í sumar en umferð um Suðurland hefur aukist mikið síðustu mánuði.

Samkvæmt upplýsingum úr sextán umferðarteljurum á þjóðvegi eitt hefur umferð um Suðurlandsveg aukist langmest upp á síðkastið enda mikill fjöldi ferðamanna, sem sækir Suðurland heim og ekur þá Suðurlandsveginn á sinni ferð.

Lögreglan á Suðurlandi hefur sett sér það markmið að vera með mjög gott eftirlit á vegunum í sumar. Grímur Hergeirsson er lögreglustjóri á Suðurlandi.

„Já, já, við reynum að skipuleggja okkur vinnu þannig að við getum sinnt okkar hlutverki í þessu umhverfi, sem við erum í dag, bæði á Suðurlandi og víðar. Það er gríðarleg aukning á umferð og fjölgun ferðamanna og það er í mörg horn að lýta.Umferðarteljarar Vegagerðarinnar sýna mikla aukningu á umferð um Suðurlandsveg núna síðustu mánuði þannig að við þurfum að vera á tánum,“ segir Grímur.

Umferð hefur aukist og aukist á Suðurlandi á síðustu mánuðum.Aðsend

Og Grímur lofar góðu umferðareftirliti lögreglu í sumar.

„Já, það verður mjög öflugt eftirlit hjá okkur á Suðurlandi í allt sumar, mjög sýnilegt og virkt umferðareftirlit, sem víðast.“

„Ég hef mannskap og peninga en ég gæti alveg notað fleiri og meiri peninga, það er auðvitað alltaf þannig en við nýtum vel það sem við höfum,“ segir Grímur.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×