Enski boltinn

Sex­tán ára og skoraði hjá Arsenal eins og Rooney forðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Issy Hobson fagnar hér jöfnunarmarki sínu fyirr Everton á móti Arsenal.
Issy Hobson fagnar hér jöfnunarmarki sínu fyirr Everton á móti Arsenal. Getty/Emma Simpson

Issy Hobson varð um helgina yngsti markaskorarinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar hjá konunum.

Með þessu marki endurtók hún það sem Wayne Rooney gerði fyrir sama lið og á móti sama liði fyrir næstum því 22 árum síðan.

Hobson er aðeins sextán ára gömul og var að skora fyrir Everton á móti Arsenal í ensku úrvalsdeildinni. Með markinu tryggði hún liði sínu 1-1 jafntefli á móti stórliðinu.

Rooney var einmitt sextán ára gamall þegar hann skoraði fyrir Everton á móti Arsenal í ensku úrvalsdeildinni árið 2002 og varð um leið sá yngsti til að skora í karladeildinni. Þá var Arsenal ríkjandi meistari.

Hobson var nákvæmlega 16 ára og 180 daga þegar hún skoraði markið sitt. Skallaði boltann laglega í markið eftir hornspyrnu. Hobson tók metið af Lauren Hemp, sem var 16 ára og 258 daga gömul þegar hún skoraði sitt fyrsta mark í ensku úrvalsdeildinni. Hemp er núna lykilmaður í enska landsliðinu.

Rooney var aðeins eldri eða 16 ára, 11 mánaða og 25 daga. Markið skoraði hann á Goodison Park 10. október 2002.

Síðan þá hafa tveir yngri skorað í ensku úrvalsdeildinni. James Milner bætti met Rooney í desember sama ár (16 ára, 11 mánaða og 22 daga) þegar hann skoraði fyrir Leeds á móti Sunderland og í apríl 2005 varð James Vaughan sá yngsti til að skora í ensku úrvalsdeidlinni.

James Vaughan var 16 ára, 8 mánaða og 27 daga þegar hann skoraði fyrir Everton á móti Crystal Palace.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×