Aðeins kraftaverk í síðustu tveimur umferðunum getur nú bjargað Burnley frá falli úr deildinni enda nú fimm stigum frá öruggu sæti.
Newcastle vann Burnley á endanum 4-1 eftir að hafa verið 3-0 yfir í hálfleik. Newcastle hafði getað unnið stærri sigur því Alexander Isak klikkaði á vítaspyrnu í leiknum.
Isak skoraði fjórða mark Newcastle en áður höfðu Callum Wilson, Sean Longstaff og Bruno Guimaraes allir skorað á fyrstu fjörutíu mínútum leiksins.
Jóhann Berg Guðmundsson kom inn á sem varamaður á 62. mínútu þegar staðan var orðin 0-4. Hann lagði upp mark fyrir Dara O'Shea á 86. mínútu.
Með þessum sigri þá fór Newcastle upp fyrir Manchester United og upp í sjötta sætið. United er tveimur stigum á eftir en á leik inni.
Burnley hafði náð í fimm stig út úr síðustu þremur leikjum en þessi skellur var ekki góður fyrir markatöluna. Burnley situr í næstsíðasta sæti, nú fimm stigum frá öruggu sæti þegar aðeins tvær umferðir eru eftir.
Það voru nefnilega ekki aðeins þessi úrslit sem voru slæm fyrir Burnley því Nottingham Forest vann á sama tíma 3-1 útisigur á Sheffield United.
Ben Brereton Diaz kom Sheffeld United í 1-0 á 17. mínútu með marki úr vítaspyrnu en Callum Hudson-Odoi jafnaði á 27. mínútu og Ryan Yates kom Forest síðan yfir á 51. mínútu.
Hudson-Odoi innsiglaði síðan sigurinn með þriðja markinu og sínu öðru marki á 65. mínútu.
Brenford og Fulham gerðu svo markalaust jafntefli í þriðja leiknum sem hófst klukkan 14.00.