Ríkisstjórn Ísraels ákvað fyrr í dag að vísa starfsemi sjónvarpsstöðvarinnar úr landi, og sögðu ástæðuna þá að fréttamenn hennar væru stríðsæsingamenn.
Skipunin er sögð mjög óvenjuleg, en í henni felst að koma í veg fyrir útsendingar með því að gera útsendingarbúnað miðilsins upptækan auk þess sem lokað hefur verið fyrir aðgang að miðlinum í landinu. Talið er að þetta sé fyrsta skiptið sem Ísraelsk yfirvöld loka á erlendan fjölmiðil með þessum hætti.
Al Jazeera hefur haldið uppi ítarlegri umfjöllun um stríðsrekstur Ísraels á Gasa frá upphafi stríðsins í október í fyrra.
Miðillinn gaf frá sér yfirlýsingu í dag þar sem fram kemur að forsvarsmenn Al Jazeera muni leitast eftir því að verja réttindi sín og fréttamannanna, sem og rétt almennings til upplýsingaöflunar.
„Ísraelsmenn hafa bælt niður fjölmiðlafrelsið í þeim tilgangi að hylma yfir voðaverk þeirra á Gasa. Með þessu hafa þau brotið gegn alþjóða- og mannúðarlögum,“ segir í yfirlýsingunni frá Al Jazeera.
„Þó að Ísrael haldi áfram að drepa, handtaka og hóta blaðamönnum mun Al Jazeera ekki lúta í lægra haldi,“ segir jafnframt í yfirlýsingunni.
Samþykktu frumvarp um Al Jazeera í apríl
Ríkisstjórn Ísraels samþykkti í síðasta mánuði lagafrumvarp sem leyfir forsætisráðuneyti Netanjahús að grípa til aðgerða gegn erlendum fjölmiðli sem var sagður „skaðlegur fyrir þjóðina“.
Shlomo Karhi samskiptaráðherra Ísraels birti í dag myndband af lögreglumönnum að ráðast inn á hótelherbergi en Al Jazeera hafði verið að senda út innan úr herberginu. Hótelið sem um ræðir er staðsett á Vesturbakkanum. Karhi sagði lögreglumennina hafa gert hluta útsendingarbúnaðarins inni í herberginu upptækan.
„Við stöðvuðum loksins þá vel smurðu undirróðsvél Al Jazeera sem er skaðlegur öryggi ríkisins,“ segir Karhi. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneyti hans verður miðlinum bannað að starfa í Ísrael næstu 45 dagana, hið minnsta.
Ítarlega umfjöllun AP um málið má nálgast hér.