Glódís og stöllur í Bayern fögnuðu þýska meistaratitlinum í fótbolta um síðustu helgi en urðu svo að sætta sig við tap gegn Wolfsburg, liði Sveindísar Jane Jónsdóttur, í bikarúrslitaleik á fimmtudaginn.
Það tap sat ekki í Bayern í dag og hin danska Pernille Harder skoraði þrennu á fyrstu tuttugu mínútunum, sem gerði út um leikinn.
Bayern hefur þar með spilað sinn síðasta heimaleik á tímabilinu og þar hefur liðið aðeins fengið á sig samtals eitt mark í öllum ellefu deildarleikjunum. Bayern er auk þess ekki búið að tapa einum einasta deildarleik á tímabilinu og þarf aðeins að forðast tap gegn Hoffenheim á útivelli í lokaumferðinni, til að fara taplaust í gegnum tímabilið.
Nürnberg átti hins vegar enga von um að halda sér uppi fyrir leikinn í dag, í næstneðsta sæti, sex stigum á eftir Köln, og með 25 mörkum verri markatölu. Tapið í dag var því aðeins formleg staðfesting á því að Nürnberg þarf að spila í næstefstu deild á næstu leiktíð, en Selma kom til félagsins frá Rosenborg í Noregi í janúar.
Sárt tap hjá Þórdísi
Í Svíþjóð þurfti Þórdís Elva Ágústsdóttir að sætta sig við sárt tap í dag þegar lið hennar Växjö tapaði 3-2 á útivelli gegn Brommapojkarna, eftir að hafa komist í 2-0. Sigurmarkið kom seint í uppbótartíma.
Þórdís kom inn á sem varamaður hjá Växjö á 58. mínútu en landsliðsframherjinn Bryndís Arna Níelsdóttir er frá keppni eftir að hafa viðbeinsbrotnað í síðasta mánuði.