Þetta hefur The Guardian eftir lögregluyfirvöldum í Ungverjalandi. Lögreglu barst tilkynning seint í gærkvöldi um að maður hefði fundist blóðugur við bakka árinnar nærri bænum Verőce. Tvö lík fundust í kjölfarið á svæðinu og skömmu síðar fannst vélbátur sem hafði sokkið í ána. Björgunaraðilum tókst að bjarga einum farþega bátsins en sá er alvarlega slasaður.
Fimm til viðbótar, þrír menn og tvær konur, eru sögð hafa verið um borð á bátnum. Leit að þeim stendur nú yfir.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var skemmtiferðabátur staðsettur á sama stað og báturinn á að hafa sokkið. Lögregla stöðvaði skemmtiferðabátinn um áttatíu kílómetrum frá slysstaðnum og uppgötvaði þar skemmdir á skipsskrokki bátsins. Þá hefur lögregla höfðað sakamál vegna gruns um að hafa stofnað sjóflutningum í hættu og valdið dauða minnst tveggja aðila.
