Veður

Vindur tals­vert hægari en í gær

Eiður Þór Árnason skrifar
Álver Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði. Hlýjast verður á Austurlandi í dag.
Álver Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði. Hlýjast verður á Austurlandi í dag. Vísir/Arnar

Hægfara lægð sést nú skammt vestur af landinu og mun suðlægri vindátt því gæta á landinu. Vindurinn verður talsvert hægari en í gær eða yfirleitt á bilinu 5 til 13 metrar á sekúndu. Hvassara við norðurströndina í fyrstu.

Dálitlar skúrir og milt veður, en súld eða rigning með köflum austantil, einkum suðaustanlands. Hiti 6 til 13 stig, hlýjast á Austurlandi. Á Suðausturlandi styttir upp seinnipartinn á morgun, en áfram má búast við skúrum á á vestanverðu landinu og heldur meiri úrkomu á miðvikudag.

Gular viðvaranir vegna veðurs voru gefnar út fyrir hina ýmsu landshluta í gær en þær hafa nú allar fallið úr gildi. Samkvæmt Vegagerðinni er snjóþekja á Steingrímsfjarðarheiði nú í morgun, hálka á Öxnadalsheiði og þæfingsfærð á Vatnsskarði eystra. Frekari upplýsingar um færð á vegum má finna á vef Vegagerðarinnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Suðvestan 5-13 m/s og skúrir, en norðaustlægari og rigning á Vestfjörðum. Hiti víða 5 til 10 stig, en þurrt að mestu og heldur hlýrra á austanverðu landinu.

Á fimmtudag: Suðlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s og víða skúrir eða slydduél, en gengur í suðaustan 8-13 með rigningu á vestanverðu landinu um kvöldið. Hiti 3 til 12 stig, hlýjast eystra.

Á föstudag: Stíf suðaustanátt og rigning eða súld, en hægara og úrkomulítið austantil. Hiti 9 til 16 stig, hlýjast norðaustanlands.

Á laugardag: Austlæg átt, víða kaldi og lítilsháttar væta, en bjartviðri norðan heiða. Hlýtt í veðri.

Á sunnudag: Útlit fyrir suðaustanátt og rigningu með köflum, en að mestu þurrt á Norðurlandi. Kólnar heldur í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×