Íslenski boltinn

„Hann þekkir mig örugg­lega betur en ég sjálfur“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Danijel Dejan Djuric skoraði tvö mörk og var óheppinn að hafa ekki tekist að fullkomna þrennuna.
Danijel Dejan Djuric skoraði tvö mörk og var óheppinn að hafa ekki tekist að fullkomna þrennuna. Vísir/Hulda Margrét

Eftir að hafa þurft að dúsa á varamannabekknum í síðustu umferð kom Danijel Dejan Djuric til baka af krafti í 4-1 útisigri Víkings gegn Vestra. Danijel átti frábæran leik, skoraði tvö mörk og hefði hæglega getað sett það þriðja en var tekinn af velli.

„Mér líður bara mjög vel. Fengum þrjá punkta og [ég skora] tvö mörk, bið ekki um mikið meira.“

Það sást langar leiðir að Danijeli langaði í þrennu. Hann komst mjög nálægt því að skora þriðja markið úr bakfallsspyrnu seint í fyrri hálfleik. Áfram ógnaði hann í seinni hálfleik en var tekinn af velli og tókst því ekki að koma þriðja markinu að. Vildi hann vera lengur inni á vellinum? 

„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn, þá já, fyrstu svona fimmtán sekúndurnar þegar ég sá skiltið. Mig langaði í þrennuna en Arnar gerir allt rétt. Hann veit alveg hvað hann er að pæla og hvað hann er að gera, ég treysti honum fyrir öllu.“

Danijel var geymdur í 90 mínútur á varamannabekknum í síðustu umferð Bestu deildarinnar þar sem Víkingur vann 2-0 gegn FH. Síðan þá hefur hann skorað mark í bikarleik gegn Grindavík og tvö mörk í dag. 

„Ég get sagt að ég var mjög ósáttur að sitja 90 mínútur og fannst ég ekki eiga það skilið. Eina leiðin var bara að koma hingað og gera allt sem ég gat, sýna hvers megnugur ég er, ekki bara í fótbolta heldur líka í hausnum. Koma hingað, skora tvö og vinna leikinn.“

Þannig að þetta bragð þjálfarans virðist hefur kveikt einhvern eld innra með honum. 

„Já, ég veit ekki sko. Hann [Arnar] þekkir mig örugglega betur en ég sjálfur, hefur gírað mig upp einhvern veginn án þess að ég viti það. Hann er magnaður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×