Enski boltinn

Chelsea í við­ræður um kaup á stjóra Leicester

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Enzo Maresca fagnar hér sigri Leicester City í ensku b-deildinni á dögunum ásamt ungri dóttur sinni.
Enzo Maresca fagnar hér sigri Leicester City í ensku b-deildinni á dögunum ásamt ungri dóttur sinni. Getty/Copa

Enzo Maresca verður að öllum líkindum næsti knattspyrnustjóri Chelsea og tekur þar með við af Mauricio Pochettino sem hætti með Lundúnafélagið eftir lokaleik tímabilsins.

Fabrizio Romano staðfestir það á miðlum sínum að Maresca sé klár í verkefnið og nú þurfi aðeins að ganga frá kaupverðinu. 

Maresca er náttúrulega knattspyrnustjóri Leicester City og kom liðinu aftur upp í ensku úrvalsdeildina á dögunum. Samkvæmt upplýsingum Romano þá fara nú viðræður í gang um kaupverðið.

Chelsea vill klára þær viðræður í vikunni þannig að Maresca geti hafið störf sem fyrst. Romano segir að Maresca geri tveggja ára samning með möguleika á einu ári til viðbótar.

Maresca er 44 ára gamall og lék á sínum tíma sem miðjumaður hjá félögum eins og West Bromwich Albion, Juventus, Fiorentina, Sevilla og Olympiacos svo einhver séu nefnd.

Hann setti fótboltaskóna upp á hillu árið 2017. Fyrsta þjálfarareynsla hans kom hjá akademíu Manchester City en fyrsta meistaraflokksstarfið var hjá Parma árið 2021. Hann var hins vegar rekinn þaðan eftir nokkra mánuði eftir að hafa mistekist að koma liði með Gianluigi Buffon og Franco Vázquez innanborðs upp í Seríu A.

Maresca var aðstoðarmaður Pep Guradiola hjá City þrennutímabilið 2022 til 2023 en tók svo liði liði Leicester City síðasta sumar. Sagan segir að hann hafi búið á æfingasvæðinu fyrstu tvo mánuðina.

Hann stýrði síðan Leicester upp í úrvalsdeildina á sínu fyrsta ári en liðið vann 36 af 53 leikjum undir hans stjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×