Innlent

„Held ég fari bara að sofa upp úr mið­nætti“

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Steinunn Ólína í Ráðhúsinu í dag.
Steinunn Ólína í Ráðhúsinu í dag. vísir/arnar

„Ég efast um að ég fylgist mikið með kosningasjónvarpinu,“ segir Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir forsetaframbjóðandi og leikkona eftir að hafa komið sínu atkvæði til skila í Ráðhúsinu í dag.

„Þetta er ánægjuleg tilfinning. Það er alltaf gaman að kjósa og nýta sinn kosningarétt,“ segir Steinunn Ólína í samtali við fréttastofu. Hún hefur mælst með um 1 prósent fylgi í síðustu skoðanakönnunum.

Spurð hvort hún sé vongóð segir Steinunn:

„Ég er bara vongóð um það að íslenska þjóðin fái þann forseta sem hún getur sætt sig við. Það er þannig að við munum öll una þeirri niðurstöðu, sama hver hún verður, og vinna með útkomuna.“

Hún segir ósennilegt að hún muni fylgjast með kosningasjónvarpi í kvöld. 

„Ég ætla að vera með vinum mínum í kvöld og borða góðan mat. Þar er ekki sjónvarp þannig ég efast um að ég fylgist mikið með kosningasjónvarpinu. Ég fer og heimsæki Rúv klukkan tíu í kvöld en síðan held ég að ég fari bara að sofa upp úr miðnætti.“

Kaust þú rétt?

„Að sjálfsögðu. Ég kaus með hjartanu og það vona ég að allir geri. Í dag er það þannig að sumir kjósa með veskinu, aðrir kjósa af klókindum. Svo vona ég að flestir kjósi með hjartanu, því þá fáum við einhverja mynd af því hvernig þjóðinni líður í raun og veru,“ segir Steinunn Ólína að lokum.

Fylgst er með öllum helstu tíðindum í forsetavaktinni hér á Vísi:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×