Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu réðst í aðgerðir á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku í tengslum við vændisrannsókn. Við fjöllum um málið í kvöldfréttum.
Þá verður rætt við konur sem segjast sem unglingar hafa orðið fyrir miklu ofbeldi af hálfu stjórnenda á meðferðarheimili á Laugalandi. Þær furða sig á þögn starfsmanna. Þá er fyrrverandi forstjóri Barnarverndarstofu sakaður um að hafa reynt að hafa áhrif á umræðu um heimilið.
Við tökum stöðuna á breskum ferðamönnum sem lentu í alvarlegu bílslysi hér á Íslandi í apríl. Við ræddum við annan þeirra í kvöldfréttum á sínum tíma og heyrum nú í hinum, sem slasaðist alvarlega og var á sjúkrahúsi í fimm vikur. Hann er loksins kominn heim til Bretlands og segir kraftaverk að hann sé á lífi.
Við verðum loks í beinni útsendingu úr góða veðrinu í miðborginni og Magnús Hlynur hittir nýkrýndan pönnukökumeistara Íslands.
Í sportinu fylgjum við áfram íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu, sem nú er mætt til Rotterdam og hitar upp fyrir leik gegn Hollandi á morgun. Liðið vill ólmt endurtaka frækinn sigur á Englendingum í fyrradag.