Sport

Ó­hugnan­legt slys á Ís­lands­meistara­mótinu í kapp­akstri mótor­hjóla

Árni Sæberg skrifar
Keppandinn endaði langt utan brautar.
Keppandinn endaði langt utan brautar. Skjáskot/Kvartmíluklúbburinn

Nokkuð óhugnanlegt slys varð á svæði Kvartmíluklúbbsins í Hafnarfirði í dag þegar keppandi á Íslandsmeistaramótinu í kappakstri mótorhjóla féll af hjóli sínu. Hann var fluttur með sjúkrabíl á spítala, þar sem hann undirgengst nú rannsóknir.

Þetta staðfestir Krist­ín Rós Hlyns­dótt­ir keppn­is­stjóri mótsins í samtali við Vísi. Hún segir að maðurinn hafi verið með meðvitund þegar hann var fluttur um borð í sjúkrabílinn. Mbl.is greindi fyrst frá slysinu.

Sýnt var frá mótinu á Youtube-rás Kvartmíluklúbbsins. Þegar rúmlega ein og hálf klukkustund er liðin af útsendingunni bregður lýsendum og einn þeirra segir „Árekstur, árekstur, árekstur.“ Útsendinguna má sjá í spilaranum hér að neðan:

Kristín Rós segir að áreksturinn hafi orðið á þriðja hring kappakstursins. Hún búi ekki yfir nánari upplýsingum um líðan keppandans að svo stöddu. Hlé hafi verið gert á keppninni á meðan mótshaldarar réðu ráðum sínum. Eftir um fjörutíu mínútna hlé hafi verið ákveðið að halda keppni áfram og hún hafi gengið áfallalaust fyrir sig eftir það.

Þá segir hún að tildrög slyssins séu enn ókunn, verið sé að skoða hvað gerðist.

Keppnin í dag var sú fyrsta af þremur á Íslandsmótinu í kappakstri mótorhjóla. Annað mót verður haldið í júlí og það þriðja í ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×