Umræðan

Lé­leg þjónusta á Kefla­víkur­flug­velli

Erlendur Magnússon skrifar

Flugstöðin í Keflavík er meðal verstu flugstöðva í þjónustu við farþega sem þekkist á Vesturlöndum.

1. Notkun fjarstæða

Í Keflavík eru fjarstæði (flugvélastæði er langt frá sjálfri flugstöðinni og farþegar þurfa að ferðast með rútum milli flugvélar og flugstöðvar) notuð mun meira en almennt gerist í Norður Evrópu. Þetta er einstaklega óheppilegt vegna þess að á Keflavíkurflugvelli er veður oft ekki sérlega gott: stífur vindur, lár lofthiti, rigning, slydda eða snjókoma. Farþegar sem eru til dæmis í tengiflugi milli Mið-Evrópu og Ameríku að vori eða hausti eru oft engan veginn klæddir til að takast á við grimma veðráttu á Miðnesheiði. Maður hefur upplifað að ganga niður hálan stiga í hífandi roki og vaða blautt flugvélahlaðið yfir í rútu og standa í henni með kaldan vind beint í fangið meðan að beðið er eftir að fylla rútuna. Svo þegar komið er að flugstöðvarbyggingunni með rútu er farþegum ætlað að troðast inn í bygginguna í gegnum þröngar dyr, líkt og um einhverskonar bráðabirgðaráðstöfun sé að ræða. Í stuttu máli er einstaklega léleg þjónusta við farþega sem ferðast um Keflavíkurflugvöll.

Svo virðist sem ákvörðun um hvaða flugvélar tengjast beint við flugstöðina með rana og hvaða vélar eru settar á fjarstæði sé einhliða Isavia og að afgreiðslugjöld flugvélanna séu hin sömu óháð staðsetningu flugstæðis, þrátt fyrir gríðarlegan gæðamun. Þannig getur flugvél flugfélags sem leggur mesta áherslu á gæði verið sett á fjarstæði meðan að flugvél lággjaldafélags sem leggur mesta áherslu á verð (og þar af leiðandi mjög næmt fyrir kostnaði) er á sama tíma tengd beint við flugstöðina.

Maður hefur upplifað að ganga niður hálan stiga í hífandi roki og vaða blautt flugvélahlaðið yfir í rútu og standa í henni með kaldan vind beint í fangið meðan að beðið er eftir að fylla rútuna.

Mögulega er þessi lélega þjónusta við farþega (og flugfélög) réttlætt með minni fjárbindingu í byggingu og búnað. Það verður hins vegar að efast um þessi rök. Það hlýtur að kosta sitt að fjármagna og reka þennan stóra rútuflota (fjárbinding í rútum, launakostnaður bílstjóra, eldsneyti, viðhald) og auk þess þarf viðbótar starfsfólk við að koma fyrir stigum úti á fjarstæðum. Þá hefur Isavia meira að segja fjárfest í nokkrum litlum byggingum með rönum á nokkrum hluta fjarstæða, þannig að rökin um lægri fjárbindingu verða afskaplega veik.

2. Illa hönnuð biðsvæði við hlið og örtröð í brottfararsal

Ólíkt flestum flugvöllum eru einstök brottfararhlið á Keflavíkurflugvelli ekki með sérstakt svæði þar sem farþegar geta sest niður og beðið eftir byrðingu flugs.

Í upphaflegri flugstöðvarbyggingunni voru aðeins sex hlið og voru þau öll staðsett við mjóan gang sem lá í suður frá flugstöðvarbyggingunni. Það kom líklega ekki að sök í þá daga þegar flug um völlinn voru fá. Það var hins vegar ótrúlega illa ígrunduð fjárfestingaákvörðun að setja ekki sérstakt bið- og byrðingarsvæði við hvert hlið þegar suðurbygging flugstöðvarinnar var reist. Þetta er sérstaklega bagalegt þegar farið er í flug út fyrir Schengen svæðið, þar sem stutt er milli brottfarahliða og það verður hreinlega örtröð í brottfararsalnum, enda hefur það gerst að farþegar hafa lent í rangri röð, auk þess að farþegar sem eru að koma til landsins þurfa oft að troðast í gegnum raðir brottfararfarþega.

Ólíkt flestum flugvöllum eru einstök brottfararhlið á Keflavíkurflugvelli ekki með sérstakt svæði þar sem farþegar geta sest niður og beðið eftir byrðingu flugs.

Vonandi hafa menn borið gæfu til þess að hanna nýja austurbyggingu í takt við það sem tíðkast á flestum flugvöllum heims með afmörkuðu biðsvæði við hvert hlið. Þá þarf að víkka suðurbygginguna til að koma fyrir biðsvæðum við hvert hlið hennar þannig að hún geti þjónað farþegum í takt við það sem eðlilegt má heita.

3. Lélegar merkingar

Þegar komið er til landsins, sérstaklega utan Schengen, eru merkingar um hvar finna megi vegabréfaskoðun og farangur mjög slæmar. Það er næstum eins og gert sé ráð fyrir að farþegar eigi að þekkja leiðina sjálfir.Stjórnendur flugstöðvarinnar ættu að prófa að ganga um flugstöðina og ímynda sér að þeir séu skiptifarþegar á ferð milli Evrópu og Ameríku sem eru að koma í fyrsta sinn inn í þessa byggingu.

4. Óskipulag á töskubeltum

Maður verður að hrósa flugstöðinni fyrir nýju töskubeltin í komusal sem eru mikil bót frá því sem áður var. Hins vegar virðist lítil breyting hafa orðið á því hvernig töskubeltum er úthlutað á einstakar flugvélar, sem er merki um lélega stjórnun. Fyrir nokkru kom höfundur til landsins á tíma þegar fá flug voru að koma (aðeins tvær aðrar flugvélar lentu á sömu klukkustund). Töskur úr flugvélunum sem lentu innan 10 mínútna voru settar á sama töskubeltið meðan að öll önnur belti voru ónotuð, en töskur úr flugvél sem átti að lenda 50 mínútum síðar var ráðstafað á annað töskubelti. Hér þarf vart annað en aðeins smá brjóstvit til að sjá að það færi betur á því að dreifa töskum úr ólíkum flugum sem koma á svipuðum tíma á fleiri en eitt töskubelti.

5. Langtímabílastæði

Langtímabílastæðið á Keflavíkurflugvelli hlýtur að vera einsdæmi í landi með háþróað hagkerfi. Gríðarlegt landflæmi hefur verið brotið undir þetta bílastæði og það þanið út lengra og lengra frá flugstöðinni eftir því sem flugumferð hefur aukist. Þannig er viðskiptavinum boðið upp á langar gönguferðir með farangur í öllum veðrum og misjafnri færð við brottför frá og komu til landsins. Ekki aðeins er þetta léleg þjónusta, heldur kostar þessi útgáfa af bílastæði mikinn snjómokstur á veturna og það gerist stundum að farþegar sem snúa heim frá útlöndum þurfa að byrja á að grafa bíla sína út úr snjóruðningi sem snjómoksturstæki hafa skilið eftir sig fyrir framan bílastæðin. Þarna væri eðlilegt að byggja bílastæðishús á nokkrum hæðum með einstefnu akstri og skásettum bílastæðum til að flýta fyrir lagningu bíla. Um leið verður snjómokstur á langtíma bílastæðum úr sögunni.

Langtímabílastæðið á Keflavíkurflugvelli hlýtur að vera einsdæmi í landi með háþróað hagkerfi. Gríðarlegt landflæmi hefur verið brotið undir þetta bílastæði og það þanið út lengra og lengra frá flugstöðinni eftir því sem flugumferð hefur aukist.

Það er svo sem fleira sem gera mætti til þess að bæta þjónustustig í flugstöðinni í Keflavík svo sem að byggja þak yfir þar sem rútur og einkabílar skila af sér eða sækja farþega við bygginguna. Einnig væri æskilegt að leigubílar sem bíða farþega væru undir þaki. Hönnun flugstöðvarinnar verður að taka betur tillit til þeirrar veðráttu sem ríkir á Miðnesheiði drjúgan hluta ársins.

Höfundur er fjárfestir.




Umræðan

Sjá meira


×