Sport

„Mark­miðið klár­­lega að vinna heims­­leikana“

Aron Guðmundsson skrifar
Bergrós ætlar sér langt í CrossFit heiminum
Bergrós ætlar sér langt í CrossFit heiminum Vísir/Einar

Bergrós Björns­dóttir stefnir hrað­byri í að verða næsta stjarna Ís­lands í Cross­Fit. Hún stefnir langt, ætlar sér að verða at­vinnu­maður í í­þróttinni, og hefur gengið í gegnum við­burða­ríka mánuði upp á síð­kastið.

Bergrós reyndi fyrir sér í undan­keppni fyrir heims­leika full­orðinna í Cross­Fit í síðasta mánuði, þrátt fyrir að vera enn gjald­geng í flokki ung­linga, en þurfti frá að hverfa eftir að hafa tognað á ökkla undir lok einnar greinarinnar. Rætt var við Bergrósu í Sportpakkanum í gær:

„Ég mætti til leiks í keppnina með nánast engar væntingar sem og enga pressu þannig séð. Ég hugsa þetta ár rosa­lega mikið út frá því að öðlast meiri reynslu og fá að keppa og reyna fyrir mér í full­orðins flokki. Aðal­at­riðið var bara að hafa gaman og að fá lær­dóm út úr þessu. Það náðist klár­lega mjög vel. Ég lít því á þetta sem góða reynslu.

En það sem gekk ekki alveg nóg vel er að ég náði ekki alveg að klára keppnina. Eftir fjórða af sex WOD-um mis­steig ég mig og tognaði smá á ökkla og á­kvað í kjöl­farið að það væri ekki sniðugt að halda á­fram keppni. Ég fann strax fyrir sárs­auka en vildi ekki láta það sjást og reyndi því að labba venju­lega í burtu. Ég var samt alveg enn en með þá von í huga að geta haldið á­fram en innst inni vissi ég að það hefði eitt­hvað gerst.“

Bergrós er til í að leggja inn vinnuna sem mun skila henni að meðal þeirra bestu í heiminum í CrossFitVísir/Einar

Erfitt fyrir hausinn

Á þeim tíma voru að­eins nokkrir dagar þangað til að Bergrós ætlaði sér að taka þátt á heims­meistara­mótinu í ólympískum lyftingum sem haldið var í Perú þetta árið og ekki út­séð með þátt­tökuna á því móti.

„Fyrstu þrjá dagana eftir þetta, fjórum dögum fyrir Heims­meistara­mótið, voru líkurnar í hausnum mínum gagn­vart því að ég gæti tekið þátt á HM nánast engar. Ég átti erfitt með að labba og gat ekki hugsað mér að fara lyfta ein­hverjum þyngdum. Þetta var því erfitt fyrir hausinn. Sér­stak­lega vegna þess að ég var með þjálfarann minn og mömmu mína með mér. Mér fannst það erfið til­hugsun að hafa dregið þau með mér í tólf klukku­stunda flug til Perú og vera kannski ekki að fara keppa.“

Það býr hins vegar mikill styrkur í Sel­fyssingnum unga og með hjálp góða teymisins í kringum hana náði hún að gera sig keppnis­hæfa og gott betur en það. Bergrós vann nefni­legast til silfur­verð­launa á mótinu, fyrst Ís­lendinga, og var að­eins einni góðri lyftu frá því að tryggja sér sigur á mótinu.

„Það var nánast krafta­verk að ég gæti keppt yfir höfuð. Þótt að ég hafi verið svona ná­lægt því að vinna, sem var auð­vitað mark­miðið áður en ég meiddist, þá var þetta mjög skemmti­leg keppni að taka þátt í. Jöfn og skemmti­leg keppni. Það að hafa geta keppt og verið full­trúi Ís­lands á verð­launa­palli var ó­trú­lega skemmti­legt.“

Vill gera sjálfa sig og fólkið í kringum sig stolt

Fram­undan eru svo spennandi mánuðir því að í ágúst munu heims­leikar ung­linga í Cross­Fit þetta árið fara fram. Bergrós á góðar minningar frá því móti og hreppti ein­mitt brons­verð­laun þar í fyrra.

Bergrós ver miklum tíma í æfingaaðstöðunni hjá CrossFit ReykjavíkVísir/Einar

Hún er á góðu skriði fyrir mótið sem er það eina sem hún er að ein­beita sér að þessar vikurnar.

„Ég er búin að fara í gegnum þrjár undan­keppnir fyrir þessa heims­leika. Þær gengu ó­trú­lega vel. Ég mæti því til leiks í mótið með sjálfs­traustið í botni og miklar væntingar. Mark­miðið er klár­lega bara að vinna heims­leikana. Það sem er þó mikil­vægara fyrir mig er bara að gera sjálfa mig stolta. Gera mitt allra besta og gera sjálfa mig stolta því að í lok dags hef ég ekki stjórn á neinu nema því sem ég geri.

Ég stjórna því ekki hvernig WOD-in verða, eða hvort að dómarinn minn sé strangari við mig en hinar stelpurnar. Það eru margir þættir sem ég hef ekki stjórn á. Ég ein­beiti mér bara að því að gera mitt allra besta og um leið gera sjálfa mig og fólkið í kringum mig stolt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×