Erlent

Fjöldi látinn eftir á­rásir á sýnagógu og kirkjur

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Reykjarmökkur stígur upp í Makhachkala. Kveikt var í sýnagógum og kirkjum.
Reykjarmökkur stígur upp í Makhachkala. Kveikt var í sýnagógum og kirkjum. AP/Golos Dagestana

Að minnsta kosti sex lögregluþjónar og einn prestur létust í skotárásum í tveimur borgum í Dagestan á sunnanverðu Rússlandi í dag. Árásarmenn hófu skothríð í sýnagógu, tveimur kirkjum og lögreglustöð.

Rússnesk yfirvöld segja fjóra árásarmannanna hafa fallið en aðrir flúðu vettvang og leit að þeim stendur yfir.

Minnst tólf lögregluþjónar særðust einnig í árásunum sem rússnesk yfirvöld telja að tengist. Árásirnar áttu sér stað í Makhachkala, höfuðborg Dagestan, og Derbent, borg á landamærunum við Aserbaídsjan.

The New York Times hafa eftir lögregluyfirvöldum í Derbent að menn vopnaðir hríðskotabyssum hafi hafið skothríð í sýnagógu og kirkju og drepið minnst einn lögregluþjón og sært annan.

RIA Novosti, rússneskur ríkismiðill, birti myndefni á Telegram sem sýnir sýnagóguna í Derbent standa í ljósum logum. Sýnagógan og kirkja brunnu til kaldra kola í kjölfar árásarinnar.

Í Makhachkala-borg við Kaspíahafið hófst skothríð á götu sem sýnagóga liggur á. Sýnagógan varð einnig fyrir árás en rabbíninn í Makhachkala sagði í samtali við RIA Novosti að enginn hafi særst í árásinni.

„Það er enginn vafi á því að þessi hryðjuverk tengist á einn eða annan hátt leyniþjónustum Úkraínu og NATO-ríkjanna,“ skrifar þingmaðurinn Abdulkhakim Gadzhiyev þingmaður í Dagestan í færslu á Telegram. Hryðjuverkasamtök íslamista eiga sér þó langa sögu á svæðinu.

Dagestan er eitt lýðvelda sambandslýðveldisins Rússlands og er meirihluti fólks þar Íslamstrúar en gyðingar eiga þar einnig heima. Mikið hefur verið um trúartengt ofbeldi frá upplausn Sovétríkjanna en það hefur færst í aukana í kjölfar þess að stríð braust út milli Ísraels og Hamas í október síðastliðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×