Kylian Mbappé, fyrirliði franska landsliðsins, nefbrotnaði í leiknum gegn Austurríki fyrir viku. Hann æfði í kjölfarið með andlitsgrímu í frönsku fánalitunum.
Mbappé var hins vegar með svarta grímu þegar hann sat á bekknum í markalausu jafntefli Frakka og Hollendinga á föstudaginn.
Evra var gestur hjá Sony Sports Network og hjálpaði til við að greina leikinn. Hann nýtti líka tækifærið til að sprella og setti upp Mbappé-grímuna við mikla kátínu áhorfenda.
Búist er við því að Mbappé spili leikinn gegn Póllandi í lokaumferð riðlakeppninnar á morgun. Hann mun þó ekki vera með þrílitu grímuna í leiknum því samkvæmt reglum UEFA verða allir slíkir hlutir að vera einlitir.
Mbappé spilaði hins vegar með grímuna skrautlegu þegar Frakkar unnu U-21 árs lið Paderborn í æfingaleik á laugardaginn með sjö mörkum gegn engu. Mbappé skoraði tvö mörk og lagði upp tvö í leiknum sem fór fram fyrir luktum dyrum.
Frakkar eru í 2. sæti D-riðils Evrópumótsins með fjögur stig. Pólverjar eru stigalausir og úr leik. Hollendingar eru á toppi riðilsins með fjögur stig en Austurríkismenn eru í 3. sætinu með þrjú stig.